Landsréttur staðfesti í dag átta ára fangelsisdóm yfir Pétri Jökli Jónassyni fyrir aðild hans að stóra kókaínmálinu svokallaða. Pétri ber þá að greiða nærri 5,5 milljónir króna í áfrýjunarkostnað. Fyrir héraði var Pétri gert að greiða yfir 10 milljónir króna í sakarkostnað.
Í nóvember 2023 voru Birgir Halldórsson, Páll Jónsson, Jóhannes Páll Durr og Daði Björnsson dæmdir í fimm til níu ára fangelsi í Landsrétti fyrir aðild sína að innflutningi tæplega 100 kg af kókaíni til landsins.
Interpol lýsti eftir Pétri Jökli sem síðar kom sjálfviljugur til landsins og var handtekinn. Ólíkt hinum mönnunum fjórum neitaði Pétur Jökull sök.
Efnin voru falin í timbursendingu frá Brasilíu en sendingin var stöðvuð í Rotterdam í Hollandi þar sem þeim var skipt út fyrir gerviefni.
Daði Björnsson var lykilvitni í málinu og neitaði hann því að Pétur Jökull væri sá Pétur sem hann hafði verið í samskiptum við í tengslum við innflutning efnanna.
Saksóknari sagði þó mörg gögn tengja Pétur Jökul við málið og þegar upp var staðið taldi dómurinn framburð Daða ekki trúverðugan.
Héraðsdómur taldi Pétur Jökul hafa verið aðalmann í brotinu og samverkamaður hinna fjögurra.
Landsréttur staðfesti dóminn úr héraði en frá refsingunni dregst gæsluvarðhald sem Pétur Jökull hefur sætt við meðferð málsins.