Um 6% einstaklinga á skattskrá eiga kost á samsköttun hjóna og sambúðarfólks.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands, sem ætlað er að skýra betur út áform stjórnvalda um að afnema ívilnandi reglu í lögum um tekjuskatt um samsköttun hjóna og sambúðarfólks.
Millifæranlegur persónuafsláttur milli hjóna og sambúðarfólks fellur ekki undir fyrirhugaðar breytingar og verður heimill áfram með óbreyttu sniði.
Reglan kom fyrst til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011 og á við í þeim tilvikum þegar annar einstaklingurinn er í efsta tekjuskattsþrepi en á sama tíma nær hinn ekki að fullnýta miðþrepið.
Þannig er heimil tilfærsla á tekjum úr efsta skattþrepi niður í miðþrep, en þó að ákveðnu hámarki.
„Ívilnunin nær til lítils minnihluta þeirra sem eru á skattskrá, þar af eru það yfir 80% karlar sem nýta ónýtt miðþrep maka eða sambúðaraðila.
Á þessu ári þarf annar aðili í hjónabandi eða skráðri sambúð að hafa yfir 15.901.523 kr. í árstekjur eða 1.325.127 kr. í mánaðartekjur til þess að reglan um samnýtingu skattþrepa taki gildi,“ sem segir í tilkynningunni.
Eftirgjöf ríkissjóðs vegna þessarar reglu nam um 2,7 milljörðum króna á tekjuárinu 2023.
Til þess að sýna betur fram á áhrif fyrirhugaðs afnáms samnýtingar skattþrepa hjóna og sambúðarfólks á greiðslu tekjuskatts hefur verið útbúin sérstök reiknivél. Þar er hægt að slá inn tekjur og sjá hver áhrifin verða miðað við núgildandi reglur.