Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir að aukin ógn á Íslandi vegna hryðjuverka skýrist af því að á Íslandi séu einstaklingar/hópar sem aðhyllast ofbeldisfulla hægri öfgahyggju og sem jafnframt hafa þekktan ásetning eða getu til að framkvæma hryðjuverk.
Þetta kemur fram í nýrri hættumatsskýrslu embættisins þar sem fjallað er um hryðjuverkaógn á Íslandi.
Bent er á að helstu skotmörk árása sem tengist öfgahyggju séu m.a. einstaklingar sem tengist ákveðnum minnihlutahópum s.s. vegna kynferðis, kynhneigðar, kynvitundar eða kyntjáningar, vegna uppruna eða trúar. Stjórnmálafólk; einkum það sem er áberandi í umræðum sem tengist átökum í Mið-Austurlöndum. Einnig táknmyndir ríkisvaldsins s.s. fánar, opinberar byggingar, skrifstofur/heimili ráðamanna. Táknmyndir sem tengjast trú s.s. kirkjur, moskur og bænahús gyðinga, segir í skýrslunni.
Embættið telur líklegast að einföldum og/eða heimatilbúnum vopnum verði beitt komi til þess að hryðjuverk verði framið á Íslandi árið 2025. Undir heimatilbúin vopn falla þrívíddarprentuð vopn, rörasprengjur o.fl. Undir einföld vopn falla haglabyssur, rifflar, skammbyssur, hnífar, axir og ökutæki.
„Í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra (GRD) varðandi hryðjuverkaógn hefur verið fjallað um hættuna sem stafar af ofbeldisfullri hugmyndafræði. GRD sér nú ýmis merki um vaxandi andlýðræðislega og ofbeldisfulla öfgahyggju eins og hugmyndir hvítrar kynþáttahyggju, ásamt ýmsum öðrum samsæriskenningum, sem dreifast á milli notenda á lokuðum spjallborðum og samskiptamiðlum. GRD telur líklegt að dulkóðaðir stafrænir vettvangar muni á næstu árum enn auka áhrif á ofbeldisfulla öfgahyggju og þá sérstaklega á meðal ungs fólks,“ segir í skýrslunni.
Þar segir enn fremur að á síðustu árum hafi herskáir hópar og samtök hægrisinnaðra öfgamanna orðið áberandi í ríkjum Evrópu og þeirri þróun hafi fylgt fjölgun ofbeldisverka sem rekja megi til haturs viðkomandi á innflytjendum og múslimum auk þess sem spjótum hafi verið beint að ríkisvaldi, pólitískum andstæðingum, minnihlutahópum og hinsegin fólki.
Þá kemur fram að aldrei áður hafi hryðjuverkasamtök átt jafn greiðan aðgang að einstaklingum um heim allan og aldrei áður hafi þeir sem aðhyllast ofbeldisfullar öfgastefnur átt jafn auðvelt með að efna til persónulegra tengsla við fólk um víða veröld.
Tekið er fram að það valdi vaxandi áhyggjum að einstaklingar eigi sífellt greiðari aðgang að áróðursefni þar sem ofbeldi sé upphafið og lofað. Aðgangur að slíku efni á netinu geti valdið því að viðkomandi gerist öfgafullur og tilbúinn til að gangast fyrir óhæfuverkum án þess þó að hann gerist nauðsynlega handgenginn sjálfri hugmyndafræðinni eða gangi til liðs við hryðjuverkasamtök.
„Víða á Vesturlöndum beinist athyglin að slíkum „sjálfsprottnum“ (e. selfradicalization) öfgamönnum sem iðulega vekja litla eða enga athygli fyrr en þeir láta til skarar skríða. Á undanförnum mánuðum hafa samtökin Ríki íslams lagt á það vaxandi áherslu í áróðri sínum að hvetja menn til að fremja hryðjuverk í heimalöndum sínum,“ segir í skýrslunni.