Viktor Ellingsson, sem stundar doktorsnám í efnafræði við Imperial College í London, fékk hæsta styrk sem skólinn veitir, svokallaðan forsetastyrk fyrir doktorsnámið. „Það er gífurleg samkeppni um að fá þennan styrk, enda gjörbreytir það allri stöðunni fyrir nemandann, því við fáum bæði laun og öll skólagjöld eru borguð, en þau eru dýr í Bretlandi,“ segir Viktor, sem kveðst afar þakklátur fyrir að hafa fengið styrkinn.
Viktor segist alltaf hafa verið heillaður af efnafræði. „Efnafræðin gat útskýrt svo mikið út frá frumhugtökum, atómunum, grunnbyggingareiningum sýnilega heimsins, og það lá beint við að læra hana eftir menntaskólann.“
Hann lauk grunnnámi í efnafræði við Háskóla Íslands. „Um leið og ég byrjaði í náminu ákvað ég að reyna að komast inn í góðan skóla og lagði áherslu á að standa mig vel, fá góðar einkunnir, og liður í því var að ég sótti um styrk í HÍ til að komast í sumarnám í Stanford-háskóla og fékk styrk til þess sumarið 2019.“
Viktor útskrifaðist svo með fyrsta flokks einkunn. „Ég var með ágætiseinkunn úr Háskóla Íslands og fékk styrk úr Verðlaunasjóði Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti árið 2021 fyrir námsárangur.“
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu sem kom út á miðvikudag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.