Happdrætti Háskóla Íslands virðist vera búið að finna heppnasta mann Íslands. Maðurinn, sem er í tilkynningu frá HHÍ, sagður vera fjölskyldufaðir af landsbyggðinni vann 2,5 milljón króna á trompmiða í happdrættinu í kvöld. Þá vann hann hálfa milljón í síðasta mánuði, og vann líka 20 þúsund krónur á annan miða í kvöld.
„Hann var að vonum glaður og ætlaði ekki að trúa því að hann hefði aftur unnið svo háa upphæð. Spurður hvað hann hygðist gera við peninginn sagðist hann ekki vera farinn að hugsa svo langt en nefndi að það gæti verið gaman að taka eiginkonuna og börnin til útlanda í haust,“ segir í tilkynningu HHÍ.
Níu miðaeigendur unnu eina milljón hver í kvöld og 18 miðaeigendur unnu hálfa milljón hver. Í heildina voru tæplega 150 milljónir króna dregnar út í kvöld og skiptust þær á milli 4.200 miðahafa.