Leigusamningar um björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið endurnýjaðir til næstu sjö ára.
Mun Gæslan því áfram hafa til afnota þær þrjár þyrlur sem hún hefur haft í sinni þjónustu undanfarið. Kostnaður ríkisins verður um átta milljarðar króna á leigutímanum, en þetta verður í fyrsta skipti sem allar þrjár þyrlurnar eru á nýjum leigusamningum allt árið. Gæslan segir tækin hafa skipt sköpum við krefjandi björgunaraðstæður.
Um er að ræða þyrlurnar TF-EIR, sem er af árgerð 2010, TF-GRO, árgerð 2010, og TF-GNA, árgerð 2014. Þær komu til landsins á árunum 2019-2021.
„Það er afar ánægjulegt að nýr leigusamningur fyrir björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar sé orðinn að veruleika,“ sagði Ásgeir Erlendsson þegar leitað var viðbragða stofnunarinnar við tíðindunum.
„Leitar- og björgunarþyrlurnar TF-EIR, TF-GNA og TF-GRO hafa reynst sérlega vel við krefjandi aðstæður á hafsvæðinu umhverfis Ísland á undanförnum árum og munu áfram verða í flugflota Landhelgisgæslunnar næstu sjö árin hið minnsta.“
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.