Gæsluvarðhald yfir tveimur táningsstúlkum sem voru handteknar fyrir stórfelldan fíkniefnaflutning á Keflavíkurflugvelli hefur verið framlengt um fjórar vikur eða til 5.maí.
Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Stúlkurnar, sem komu til landsins frá Þýskalandi, voru handteknar á Keflavíkurflugvelli þann 30.mars fyrir innflutning á 20 þúsund fölsuðum Oxycontin-töflum.
Önnur þeirra er sautján ára að verða átján, og því undir lögaldri, en hin er fædd árið 2005 og verður tvítug á þessu ári. Báðar eru þær með evrópskt ríkisfang.
„Rannsóknin er í fullum gangi og hún er unnin í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld,“ segir Úlfar við mbl.is.
20 manns hafa verið í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, þar af eru 15 einstaklingar vegna innflutnings á fíkniefnum í gegnum Keflavíkurflugvöll.
Úlfar segir að í dag bætist þrír við þennan hóp, einn vegna innflutnings á fíkniefnum í máli sem upp kom í nótt og tveir vegna væntanlegs brottflutnings úr landi.