Getur ekki hugsað sér að eiga ekki geitur

Vilhjálmur með ungan kiðling í fanginu sem unir sér vel.
Vilhjálmur með ungan kiðling í fanginu sem unir sér vel. mbl.is/Atli Vigfússon

„Við erum búin að vera með geit­ur í næst­um því 60 ár,“ seg­ir Vil­hjálm­ur Gríms­son, bóndi á Rauðá í Þing­eyj­ar­sveit. Lengi vel var Rauðá eini bær­inn í sveit­inni sem var með geit­ur, en Vil­hjálm­ur seg­ir að nokkr­ir hafi bæst við.

„Ég er nú far­inn að minnka við mig, en ég get ekki hugsað mér að vera ekki með geiturn­ar,“ seg­ir hann, þó að bú­skap­ur­inn sé meira til gam­ans því að hann hef­ur ekki mikið verið að selja afurðirn­ar.

„Það er dýrt að súta stök­urn­ar, en við höf­um nýtt kjötið eitt­hvað. En það er hægt að kemba af þeim ull sem er mjög fín,“ seg­ir hann en eng­inn hafi þó boðist til að prjóna á hann geitapeysu.

Vor­boðinn ljúfi

Núna er burðinum lokið þetta árið, geiturn­ar báru 18 kiðling­um en 14 komust á legg. „Eins og geng­ur og ger­ist þá lifðu ekki all­ir kiðling­arn­ir, en geiturn­ar byrjuðu að bera 8. mars og voru bún­ar 18. mars. Þær eru sam­stiga í þessu blessaðar.“

Þegar hann er spurður hvort vorið sé ekki á næsta leiti þegar kiðling­arn­ir eru komn­ir í hús seg­ir hann að það sé kannski ekki bein teng­ing þar á milli, en þó sé fámuna­blíða í sveit­inni. „Það er 14 stiga hiti núna, en við bænd­ur erum ekk­ert of ánægðir með það, því þá fer gróður­inn að taka við sér og ef það fryst­ir aft­ur hef­ur það slæm áhrif.“

Geitur eru bæði skynugar skepnur og afar forvitnar
Geit­ur eru bæði skyn­ug­ar skepn­ur og afar for­vitn­ar mbl.is/​Atli Vig­fús­son

Klifra yfir girðing­ar

Vil­hjálm­ur seg­ir geit­ur vera af­skap­lega for­vitn­ar skepn­ur og skyn­ug­ar. „Þær hafa mik­inn áhuga á um­hverf­inu og eru mann­elsk­ar og gæf­ar.“ Þegar hann er spurður hvort þær kunni ekki best við sig í brött­um hlíðum seg­ir hann að þær séu mjög mik­il klif­ur­dýr. „En við erum nú ekki með mikið fjall­lendi hérna hjá mér, en þær láta eng­ar girðing­ar stoppa sig ef þær eru for­vitn­ar um hvað sé hinum meg­in. Við höf­um frek­ar gert stiga yfir girðing­arn­ar svo þær fari ekki að festa sig í þeim, en stund­um koma þær sér í kland­ur sem þær kom­ast ekki úr. Svo þarf að passa blóma- og ma­t­jurta­g­arða og setja þar mann­held­ar girðing­ar svo þær fari ekki í þá.“

All­ir vel­komn­ir

Vil­hjálm­ur seg­ir að fram­an af hafi marg­ir hóp­ar heim­sótt hann til að sjá kiðling­ana á vor­in, og oft hafi skóla­börn komið í hóp­um. „Það hef­ur minnkað núna. Það er þessi hugs­un í dag að það sé ein­hver átroðning­ur ef fólk kík­ir í heim­sókn, sem mér finnst miður, og menn eru miklu minna að fara á milli bæja í dag. En hér eru all­ir vel­komn­ir svo fremi að ein­hver sé heima.“

Kiðlingarnir eru hændir að Vilhjálmi, en þeir eru mannelskir með …
Kiðling­arn­ir eru hænd­ir að Vil­hjálmi, en þeir eru mann­elsk­ir með af­brigðum og kunna vel við öll sam­skipti við bæði börn og full­orðna. mbl.is/​Atli Vig­fús­son
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert