„Við erum búin að vera með geitur í næstum því 60 ár,“ segir Vilhjálmur Grímsson, bóndi á Rauðá í Þingeyjarsveit. Lengi vel var Rauðá eini bærinn í sveitinni sem var með geitur, en Vilhjálmur segir að nokkrir hafi bæst við.
„Ég er nú farinn að minnka við mig, en ég get ekki hugsað mér að vera ekki með geiturnar,“ segir hann, þó að búskapurinn sé meira til gamans því að hann hefur ekki mikið verið að selja afurðirnar.
„Það er dýrt að súta stökurnar, en við höfum nýtt kjötið eitthvað. En það er hægt að kemba af þeim ull sem er mjög fín,“ segir hann en enginn hafi þó boðist til að prjóna á hann geitapeysu.
Núna er burðinum lokið þetta árið, geiturnar báru 18 kiðlingum en 14 komust á legg. „Eins og gengur og gerist þá lifðu ekki allir kiðlingarnir, en geiturnar byrjuðu að bera 8. mars og voru búnar 18. mars. Þær eru samstiga í þessu blessaðar.“
Þegar hann er spurður hvort vorið sé ekki á næsta leiti þegar kiðlingarnir eru komnir í hús segir hann að það sé kannski ekki bein tenging þar á milli, en þó sé fámunablíða í sveitinni. „Það er 14 stiga hiti núna, en við bændur erum ekkert of ánægðir með það, því þá fer gróðurinn að taka við sér og ef það frystir aftur hefur það slæm áhrif.“
Vilhjálmur segir geitur vera afskaplega forvitnar skepnur og skynugar. „Þær hafa mikinn áhuga á umhverfinu og eru mannelskar og gæfar.“ Þegar hann er spurður hvort þær kunni ekki best við sig í bröttum hlíðum segir hann að þær séu mjög mikil klifurdýr. „En við erum nú ekki með mikið fjalllendi hérna hjá mér, en þær láta engar girðingar stoppa sig ef þær eru forvitnar um hvað sé hinum megin. Við höfum frekar gert stiga yfir girðingarnar svo þær fari ekki að festa sig í þeim, en stundum koma þær sér í klandur sem þær komast ekki úr. Svo þarf að passa blóma- og matjurtagarða og setja þar mannheldar girðingar svo þær fari ekki í þá.“
Vilhjálmur segir að framan af hafi margir hópar heimsótt hann til að sjá kiðlingana á vorin, og oft hafi skólabörn komið í hópum. „Það hefur minnkað núna. Það er þessi hugsun í dag að það sé einhver átroðningur ef fólk kíkir í heimsókn, sem mér finnst miður, og menn eru miklu minna að fara á milli bæja í dag. En hér eru allir velkomnir svo fremi að einhver sé heima.“