Skyldubundni matsferillinn sem leysa á gömlu samræmdu könnunarprófin af hólmi er alls ekki samræmdur.
Þetta segir Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi skólastjóri og kennari, sem ræðir við Hólmfríði Maríu Ragnhildardóttur í Dagmálum.
Hann telur hættu á að prófabankinn sem notaður verði í matsferli komist í hendur foreldra, sem geti m.a. fengið hann með því að óska eftir honum. Fordæmi séu fyrir því hjá úrskurðarnefnd upplýsingamála í tengslum við samræmdu könnunarprófin.
Þá vekur hann athygli á því að matsferillinn prófi aðeins hluta af þeim hæfniviðmiðum sem nemendur eiga að hafa tileinkað sér, og þá aðeins í íslensku og stærðfræði.
Jón Pétur telur að halda þurfi samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 9. bekk á grundvelli núgildandi laga um grunnskóla.
Þá þurfi jafnframt að halda lokapróf úr grunnskólum til að gæta sanngirnis milli nemenda.
Rannsóknir hafa enda sýnt að án samræmdra prófa hallar á nemendur vissra skóla, meðal annars af landsbyggðinni, við mat á skólaeinkunnum þeirra við útskrift. Þetta hafa skólayfirvöld neitað að horfast í augu við.
Frumvarp um nýtt námsmat, svokallaðan matsferil, er nú til meðferðar hjá þinginu. Innleiðingu hans var flýtt í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is á síðasta ári.
Minnihlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd hefur skilað inn áliti vegna frumvarpsins þar sem skyldubundni hluti matsferilsins er gagnrýndur. Jón Pétur á þar sæti.
Hann bendir á að nemendur hafi fjögurra vikna glugga til að leysa matsferilinn sem er skyldubundinn. Þar með sé hætta á að prófaspurningar berist á milli skóla.
„Það er verið að meta skóla, bekki, nemendur, sveitarfélög og allt menntakerfið út frá þessum prófum. Þannig að það er mikið undir að ná góðum árangri. Þannig að hættan við það að, þegar þú tekur þetta ekki allt á sama tíma á sama degi – þá er töluverð hætta á að prófið smitist á milli skóla.“
Hann segir flesta vilja ná árangri, sama hvort það séu kennarar, skólastjórnendur, nemendur eða foreldrar.
Að sögn Jóns Péturs verða prófin óbreytt á milli ára þannig að kennarar verða meðvitaðir um hvaða spurningar munu koma þar fram þegar þau hafa verið lögð fram einu sinni.
„Þá er mjög líklegt að þú kennir til prófsins þannig að árangurinn verður mögulega betri en efni stendur til. Og þetta á síðan að nota til að meta hvernig skólar standa, hvernig börn standa og hvernig sveitarfélög standa. Það er engin samræming í þessu og það er alveg ljóst öllum sem vilja sjá.“