Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði breytingar á veiðigjöldum að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún sakaði stjórnvöld m.a. um óvandaða stjórnsýslu. Því hafnar Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. „Þessi leiðrétting stendur. Hún er vel unnin og hún er fyrir almannahagsmuni,“ sagði Hanna Katrín.
Guðrún hóf mál sitt á að segja frá því að ný gögn sýndu að atvinnuvegaráðherra og ríkisstjórnin hefðu haft í höndum minnisblöð frá sérfræðingum Stjórnarráðsins þar sem skýrt væri varað við að leggja fram frumvarp um breytt veiðigjaldakerfi án vandaðrar greiningar og samráðs.
„Ítrekað var bent á að forsendur væru ótryggar, að gögn vantaði og að tillögur þyrftu að fá efnislega umræðu áður en ákvörðun yrði tekin. Það þarf mikinn ásetning til að hunsa slíka ráðgjöf og þrátt fyrir þessi varnaðarorð var frumvarpið í samráðsgátt í aðeins sjö virka daga. Gögn sem hagsmunaaðilar báðu um voru ekki afhent fyrr en eftir að umsagnarfrestur rann út,“ sagði Guðrún og hélt áfram:
„Minnisblöðin sem fjölmiðlar óskuðu eftir voru afhent mörgum mánuðum síðar og einungis eftir ítrekaðar beiðnir og úrskurð kærunefndar. Þetta hefur vakið áhyggjur um ferlið sjálft og sérstaklega meðal íbúa í sjávarbyggðum, sveitarstjórnarfólks og þeirra sem reiða sig á sjávarútveginn í atvinnu og afkomu. Þar var hvorki boðað til samráðs né veitt svigrúm til að koma sjónarmiðum á framfæri.“
Hún spurði Hönnu Katrínu hvers vegna hefði ekki verið hlustað á sérfræðinga og hvers vegna hefði samráðsferlinu verið lokað áður en aðilar höfðu fengið þau gögn sem óskað var eftir.
„Þessi málsmeðferð ber ekki aðeins merki um óvandaða stjórnsýslu, hún sýnir ábyrgðarleysi gagnvart einni af grunnstoðum íslensks atvinnulífs,“ sagði hún.
Hanna Katrín sagði að Guðrún færi býsna bratt í því að tala um óábyrga stjórnsýslu.
„Staðreyndin er sú, eins og við þekkjum, að minnisblöð, ekki síst við stjórnarmyndunarviðræður, eru unnin í miklum flýti, enda eru þau minnisblöð sem hér er vísað í sett fram með þeim fyrirvara að þörf sé á að framkvæma ítarlegri breytingar til að leggja mat á áhrif. Sú vinna hófst í ráðuneytinu eftir að ég kom þangað inn og samráðið hófst mjög fljótlega. Upplýsingar hafa legið fyrir. Ég er með mjög skýra tímalínu þess samráðs sem var í boði og það var brugðist við ákveðnum áhyggjum, vísbendingum, sem komu fram í minnisblaðinu. Til að mynda var talað um að leiðréttingin sem þetta er, leiðrétting fyrir almenning í landinu, leiðrétting á grunni veiðigjalda sem á að greiða fyrir afnot af íslenskri þjóðarauðlind — jaðarverðið, já, vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af því ef allar tegundir væru undir. Við notum bara þær tvær sem næg viðskipti eru með á markaði til að tryggja að það sé markaðsverð,“ sagði Hanna Katrín.
„Uppsjávarsamanburðurinn — jú, við slepptum loðnu og við miðum við sama tímabil. Við fengum ráðgjöf hagfræðinga frá Noregi sem staðfestu að norska verðið væri markaðsverð. Það var því nákvæmlega tekið tillit til minnisblaðanna og í kjölfarið var farið í samráð með hagsmunaaðilum. Það var talað um það, frá upphafi þessa ríkisstjórnarsamstarfs, að við ætluðum að leiðrétta grunninn. Það var rætt við upphaf þingmálaskrár, það var rætt við framlagningu fjármálaáætlunar og það var rætt á fundum, formlegum sem óformlegum, við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og boðað til funda sem Samtökin mættu ekki á. Það voru lögð fram gögn, vissulega ekki trúnaðargögn, vissulega ekki þau vinnugögn sem við erum með í þinginu — og ég bara hafna þeirri heimtufrekju sem kemur fram hjá hagsmunasamtökunum þegar þau kalla eftir því að við birtum slíkar trúnaðarupplýsingar. Þau fá þær upplýsingar sem við eigum og við getum birt. Þessi leiðrétting stendur. Hún er vel unnin og hún er fyrir almannahagsmuni,“ sagði ráðherra enn fremur.
Guðrún tók fram að hún vildi leiðrétta ráðherra þegar hún nefndi hér væri um leiðréttingu að ræða þegar verið væri að ræða um skattahækkun á eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.
„Það hefur verið mikið talað um, ekki síst af Viðreisn, nauðsyn sáttar um sjávarútveginn og traust í gjaldtöku af auðlindinni, en hvernig á sátt að nást þegar öllu virðist hafa verið stefnt í einn farveg frá upphafi og samráði aldrei raunverulega ætlað að eiga sér stað? Við í Sjálfstæðisflokknum erum reiðubúin að ræða úrbætur í málefnum sjávarútvegs en það verður að gerast með faglegum undirbúningi og gegnsæi. Hér hefur annað verið uppi á teningnum. Vegferð ráðherrans einkennist af óskýrleika, skorti á upplýsingum og þeirri ákvörðun að halda aðilum málsins utan við ferlið.
Því spyr ég hæstvirta ráðherra aftur: Telur hún raunhæft að byggja upp sátt með þessum hætti? Ef markmiðið er traust og samstaða hvers vegna var þá öllu hagað á þann veg að tortryggni væri nánast óumflýjanleg,“ spurði Guðrún.
Hanna Katrín sagði að sennilega væri staðreyndin sú að fulltrúar ríkisstjórnarinnar og fulltrúar minni hlutans á Alþingi hefðu mjög ólíka mynd af því hvað samráð væri, sanngirni, traust og samráð.
„Ég minni á að háttvirtur formaður Sjálfstæðisflokksins var hluti af þeirri ríkisstjórn sem fyrir ári síðan setti fram í fjármálaáætlun sinni hækkun á veiðigjöldum um 5 milljarða án nokkurs samráðs, án nokkurrar greiningar annarrar en þeirrar að það átti að breyta hlutfallinu sem fór til þjóðarinnar úr 33% í 45%. Hvar var það samráð? Við fórum í leiðréttingu og það verður bara að hafa það ef hv. formaður Sjálfstæðisflokksins telur það ekki leiðréttingu þegar við ætlum að búa svo um hnútana að útgerðin greiði fyrir raunverulegt verðmæti fisksins í sjónum. Við fórum í það að leiðrétta verðið en ekki þá vegferð að segja: Úps, okkur vantar 5 milljarða í ríkiskassann. Skellum því á útgerðina. Við fórum í að leiðrétta reiknistuðulinn og þetta var niðurstaðan,“ sagði ráðherra.