Hanna Katrín: „Þessi leiðrétting stendur“

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra ræddu …
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra ræddu veiðigjöldin á Alþingi í dag. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/Eyþór

Guðrún Haf­steins­dótt­ir, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, gerði breyt­ing­ar á veiðigjöld­um að um­tals­efni í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma á Alþingi í dag. Hún sakaði stjórn­völd m.a. um óvandaða stjórn­sýslu. Því hafn­ar Hanna Katrín Friðriks­son at­vinnu­vegaráðherra. „Þessi leiðrétt­ing stend­ur. Hún er vel unn­in og hún er fyr­ir al­manna­hags­muni,“ sagði Hanna Katrín.

Guðrún hóf mál sitt á að segja frá því að ný gögn sýndu að at­vinnu­vegaráðherra og rík­is­stjórn­in hefðu haft í hönd­um minn­is­blöð frá sér­fræðing­um Stjórn­ar­ráðsins þar sem skýrt væri varað við að leggja fram frum­varp um breytt veiðigjalda­kerfi án vandaðrar grein­ing­ar og sam­ráðs.

Ekk­ert sam­ráð og ekk­ert svig­rúm

„Ítrekað var bent á að for­send­ur væru ótrygg­ar, að gögn vantaði og að til­lög­ur þyrftu að fá efn­is­lega umræðu áður en ákvörðun yrði tek­in. Það þarf mik­inn ásetn­ing til að hunsa slíka ráðgjöf og þrátt fyr­ir þessi varnaðarorð var frum­varpið í sam­ráðsgátt í aðeins sjö virka daga. Gögn sem hags­munaaðilar báðu um voru ekki af­hent fyrr en eft­ir að um­sagn­ar­frest­ur rann út,“ sagði Guðrún og hélt áfram:

„Minn­is­blöðin sem fjöl­miðlar óskuðu eft­ir voru af­hent mörg­um mánuðum síðar og ein­ung­is eft­ir ít­rekaðar beiðnir og úr­sk­urð kær­u­nefnd­ar. Þetta hef­ur vakið áhyggj­ur um ferlið sjálft og sér­stak­lega meðal íbúa í sjáv­ar­byggðum, sveit­ar­stjórn­ar­fólks og þeirra sem reiða sig á sjáv­ar­út­veg­inn í at­vinnu og af­komu. Þar var hvorki boðað til sam­ráðs né veitt svig­rúm til að koma sjón­ar­miðum á fram­færi.“

Hún spurði Hönnu Katrínu hvers vegna hefði ekki verið hlustað á sér­fræðinga og hvers vegna hefði sam­ráðsferl­inu verið lokað áður en aðilar höfðu fengið þau gögn sem óskað var eft­ir.

„Þessi málsmeðferð ber ekki aðeins merki um óvandaða stjórn­sýslu, hún sýn­ir ábyrgðarleysi gagn­vart einni af grunnstoðum ís­lensks at­vinnu­lífs,“ sagði hún. 

Upp­lýs­ing­ar hafi legið fyr­ir

Hanna Katrín sagði að Guðrún færi býsna bratt í því að tala um óá­byrga stjórn­sýslu.

„Staðreynd­in er sú, eins og við þekkj­um, að minn­is­blöð, ekki síst við stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður, eru unn­in í mikl­um flýti, enda eru þau minn­is­blöð sem hér er vísað í sett fram með þeim fyr­ir­vara að þörf sé á að fram­kvæma ít­ar­legri breyt­ing­ar til að leggja mat á áhrif. Sú vinna hófst í ráðuneyt­inu eft­ir að ég kom þangað inn og sam­ráðið hófst mjög fljót­lega. Upp­lýs­ing­ar hafa legið fyr­ir. Ég er með mjög skýra tíma­línu þess sam­ráðs sem var í boði og það var brugðist við ákveðnum áhyggj­um, vís­bend­ing­um, sem komu fram í minn­is­blaðinu. Til að mynda var talað um að leiðrétt­ing­in sem þetta er, leiðrétt­ing fyr­ir al­menn­ing í land­inu, leiðrétt­ing á grunni veiðigjalda sem á að greiða fyr­ir af­not af ís­lenskri þjóðarauðlind — jaðar­verðið, já, vissu­lega ástæða til að hafa áhyggj­ur af því ef all­ar teg­und­ir væru und­ir. Við not­um bara þær tvær sem næg viðskipti eru með á markaði til að tryggja að það sé markaðsverð,“ sagði Hanna Katrín.

„Upp­sjáv­ar­sam­an­b­urður­inn — jú, við sleppt­um loðnu og við miðum við sama tíma­bil. Við feng­um ráðgjöf hag­fræðinga frá Nor­egi sem staðfestu að norska verðið væri markaðsverð. Það var því ná­kvæm­lega tekið til­lit til minn­is­blaðanna og í kjöl­farið var farið í sam­ráð með hags­munaaðilum. Það var talað um það, frá upp­hafi þessa rík­is­stjórn­ar­sam­starfs, að við ætluðum að leiðrétta grunn­inn. Það var rætt við upp­haf þing­mála­skrár, það var rætt við fram­lagn­ingu fjár­mála­áætl­un­ar og það var rætt á fund­um, form­leg­um sem óform­leg­um, við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi og boðað til funda sem Sam­tök­in mættu ekki á. Það voru lögð fram gögn, vissu­lega ekki trúnaðargögn, vissu­lega ekki þau vinnu­gögn sem við erum með í þing­inu — og ég bara hafna þeirri heimtu­frekju sem kem­ur fram hjá hags­muna­sam­tök­un­um þegar þau kalla eft­ir því að við birt­um slík­ar trúnaðar­upp­lýs­ing­ar. Þau fá þær upp­lýs­ing­ar sem við eig­um og við get­um birt. Þessi leiðrétt­ing stend­ur. Hún er vel unn­in og hún er fyr­ir al­manna­hags­muni,“ sagði ráðherra enn frem­ur.

Veg­ferð sem ein­kenn­ist af óskýr­leika og skorti á upp­lýs­ing­um

Guðrún tók fram að hún vildi leiðrétta ráðherra þegar hún nefndi hér væri um leiðrétt­ingu að ræða þegar verið væri að ræða um skatta­hækk­un á eina mik­il­væg­ustu at­vinnu­grein þjóðar­inn­ar.

„Það hef­ur verið mikið talað um, ekki síst af Viðreisn, nauðsyn sátt­ar um sjáv­ar­út­veg­inn og traust í gjald­töku af auðlind­inni, en hvernig á sátt að nást þegar öllu virðist hafa verið stefnt í einn far­veg frá upp­hafi og sam­ráði aldrei raun­veru­lega ætlað að eiga sér stað? Við í Sjálf­stæðis­flokkn­um erum reiðubú­in að ræða úr­bæt­ur í mál­efn­um sjáv­ar­út­vegs en það verður að ger­ast með fag­leg­um und­ir­bún­ingi og gegn­sæi. Hér hef­ur annað verið uppi á ten­ingn­um. Veg­ferð ráðherr­ans ein­kenn­ist af óskýr­leika, skorti á upp­lýs­ing­um og þeirri ákvörðun að halda aðilum máls­ins utan við ferlið.

Því spyr ég hæst­virta ráðherra aft­ur: Tel­ur hún raun­hæft að byggja upp sátt með þess­um hætti? Ef mark­miðið er traust og samstaða hvers vegna var þá öllu hagað á þann veg að tor­tryggni væri nán­ast óumflýj­an­leg,“ spurði Guðrún. 

„Úps, skell­um því á út­gerðina“

Hanna Katrín sagði að senni­lega væri staðreynd­in sú að full­trú­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar og full­trú­ar minni hlut­ans á Alþingi hefðu mjög ólíka mynd af því hvað sam­ráð væri, sann­girni, traust og sam­ráð.

„Ég minni á að hátt­virt­ur formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins var hluti af þeirri rík­is­stjórn sem fyr­ir ári síðan setti fram í fjár­mála­áætl­un sinni hækk­un á veiðigjöld­um um 5 millj­arða án nokk­urs sam­ráðs, án nokk­urr­ar grein­ing­ar annarr­ar en þeirr­ar að það átti að breyta hlut­fall­inu sem fór til þjóðar­inn­ar úr 33% í 45%. Hvar var það sam­ráð? Við fór­um í leiðrétt­ingu og það verður bara að hafa það ef hv. formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins tel­ur það ekki leiðrétt­ingu þegar við ætl­um að búa svo um hnút­ana að út­gerðin greiði fyr­ir raun­veru­legt verðmæti fisks­ins í sjón­um. Við fór­um í það að leiðrétta verðið en ekki þá veg­ferð að segja: Úps, okk­ur vant­ar 5 millj­arða í rík­iskass­ann. Skell­um því á út­gerðina. Við fór­um í að leiðrétta reikn­istuðul­inn og þetta var niðurstaðan,“ sagði ráðherra. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert