Þrátt fyrir að olíuverð hafi lækkað á heimsmarkaði og bandaríkjadalur veikst hefur það ekki skilað sér nema að litlu leyti út í verðlag á bensíni og dísilolíu hér á landi, en það sem af er þessum mánuði hefur heimsmarkaðsverð á olíu farið, umreiknað í íslenskar krónur, niður um 7-8 krónur á lítrann.
Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir þó að virða megi olíufélögunum það til vorkunnar að um miðjan sl. mánuð hafi verðið verið á svipuðum slóðum og nú. Hann nefnir einnig að nýir skattar á eldsneyti hafi tekið gildi um sl. áramót.
Þannig hafi kolefnisgjald á hvern bensínlítra hækkað úr 11,70 krónum í 18,60 krónur og á dísilolíu úr 13,45 krónum í 21,40 krónur. Þá hafi bæði bensín- og dísilolíugjöld einnig hækkað og þannig hafi bensínlítrinn hækkað um 12 krónur með virðisaukaskatti um áramót.
„En verðið hér á landi hefur ekki lækkað eins og búast hefði mátt við,“ segir Runólfur og bendir hann á danska markaðinn þar sem verð hefur lækkað um 5-6 krónur á sama tíma og það hefur lækkað um hálfa til eina krónu á lítrann hér á landi.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.