Alma Möller, heilbrigðisráðherra, segir að mörg ofbeldismál sem komið hafa upp að undanförnu hafi leitt til þess að sérstök áhersla var lögð á að setja á fót öryggisstofnun.
Tilgangur hennar er m.a. að huga að málum einstaklinga sem fallið hafa á milli skips og bryggju í kerfinu og þykja hættulegir sjálfum sér og öðrum í samfélaginu.
Samhliða var tilkynnt um að rýmum á öryggisgeðdeild verði fjölgað úr átta í sextán.
„Það hafa komið upp mál að undanförnu sem sýnt hafa fram á hve þörfin er brýn og hve mikilvægt er að taka heildstætt á þeim. Þessi atvik hafa virkilega sýnt fram á nauðsyn þess að finna úrræði sem virkar,“ segir Alma.
Eitt þeirra mála sem Alma vísar til er mál Alfreðs Erlings Þórðarsonar sem myrti hjón í Neskaupstað í ágúst í fyrra. Alfreð var metinn ósakhæfur og var þar með sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins. Þrátt fyrir ósakhæfi komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Alfreð hefði orðið hjónunum að bana. Alfreð framdi voðaverkið nokkrum vikum eftir að hafa verið úrskurðaður í nauðungarvistun á geðdeild. Var hann útskrifaður af geðdeildinni að eigin ósk og féll úrskurðurinn þar með úr gildi.
Að sögn Ölmu verður öryggisgeðdeildin staðsett á Kleppi. Þar er nú pláss fyrir átta einstaklinga en þau verða sextán eftir framkvæmdirnar.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort þessir einstaklingar verði vistaðir í geðhúsi sem til stendur að reisa. Ekki hefur fundist lóð undir húsið en að sögn Ölmu er virkt samtal við Reykjavíkurborg um að finna geðhúsinu staðsetningu. Þá á hún von á því að kostnaður við það verði útlistaður í fjármálaáætlun næsta árs.
„Réttar- og öryggisdeildin verður stækkuð inni á Kleppi. Til lengri tíma gæti þurft fleiri rými. Hins vegar er þetta sá fjöldi rýma sem Landspítalinn hefur beðið um,“ segir Alma.
Nú stendur til að setja á fót öryggisstofnun. Hvaða tilgangi þjónar hún?
„Hún er á vegum félags- og húsnæðisráðuneytisins. En hugmyndin er sú að þessi stofnun taki við eftir afplánun dóma. Að þetta verði þrepaskipt úrræði eftir því hvað hver og einn þarf. Núna er fólk sem þarf öryggisvistun staðsett hér og þar. En með þessu verður málaflokkurinn samhæfður betur,“ segir Alma.
Verður aukin öryggisgæsla heimiluð undir þessum hatti?
„Það hefur alveg vantað úrræði fyrir fólk sem klárar afplánun, fólk sem er jafnvel hættulegt sjálfu sér og öðrum. Þetta fólk getur verið misjafnt og ætlunin er að samhæfa þessi mál á milli sveitarfélaga og heilbrigðiskerfis og annars,“ segir Alma.
Fram kemur í tilkynningu frá ríkisstjórninni um öryggisstofnun og stækkaða öryggisgeðdeild að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra muni leggja fram frumvarp um breytingar á VII. kafla almennra hegningarlaga, sem fjallar um öryggisráðstafanir, sem og eftir atvikum fleiri laga sem að málaflokknum lúta.
Þá mun ráðuneyti Ölmu Möller vinna frumvarp um breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem varða nauðung í heilbrigðisþjónustu vegna þessara breytinga.
„Við viljum helst ekki beita nauðung í heilbrigðisþjónustu, t.d. inni á geðdeild. En það getur verið nauðsynlegt í undantekningartilvikum og það á að vinna það með hagsmunaaðilum eins og Geðhjálp og fleirum. En það er ljóst að alveg ljóst að það verða vera til heimildir til að beita nauðung í neyðartilfellum,“ segir Alma.