Framkvæmdir verða á fjölförnum vegum á Suðvesturlandi í nótt og geta haft áhrif á ökumenn á leið um Hellisheiði og Hvalfjarðargöng. Vegagerðin sendi frá sér tilkynningu þess efnis í kvöld.
Hellisheiði verður lokað til vesturs, áleiðis til Reykjavíkur kl. 00.00 í kvöld til kl. 03.00 í nótt vegna vinnu við ljósleiðara.
Umferð til Reykjavíkur verður beint um Þrengslin, en heiðin verður opin fyrir umferð til austurs.
Þá verður fylgdarakstur vegna þrifa í Hvalfjarðargöngum í nótt, frá kl. 00.00 til kl. 06.30 í fyrramálið.
Umferð verður stöðvuð við gangamunna uns fylgdarbíll kemur en vegfarendur eru beðnir um að aka með gát þar sem flughálka getur myndast. Reikna má með allt að 20 mínútna bið á milli ferða.