Unglingum meira sama þó neysla þeirra sé sýnileg

Hjörleifur Steinn Þórisson, verkefnastjóri Flotans, segir góðan árangur hafa náðst …
Hjörleifur Steinn Þórisson, verkefnastjóri Flotans, segir góðan árangur hafa náðst við að kortleggja heita reiti í Reykjavík. Samsett mynd/Colourbox/Árni Sæberg

Sýni­leiki fíkni­efna­neyslu barna og ung­linga er meiri en áður og svo virðist sem þeim sé meira sama þó til þeirra sjá­ist. Leiðin inn heim fíkni­efn­anna er styttri en áður og börn og ung­ling­ar sem þangað leita eru sí­fellt yngri. 

Þetta er eitt­hvað sem starfs­fólk Flot­ans, flakk­andi fé­lags­miðstöðvar, hef­ur tekið eft­ir að hafi verið að breyt­ast síðustu ár.

Flot­inn hef­ur það verk­efni að fara á milli hverfa í Reykja­vík­ur­borg og hitta börn og ung­linga, þar sem hópa­mynd­un á sér stað, í þeim til­gangi að reyna að sporna við óæski­legri hegðun og mynda tengsl.  

Með því hef­ur tek­ist að kort­leggja svo­kallaða heita reiti, þar sem hópa­mynd­un á sér stað. Þá hef­ur starfs­fólk Flot­ans einnig séð ár­ang­ur nást með ein­staka börn sem hafa snúið við blaðinu, eft­ir að góð tengsl náðust á vett­vangi. 

Mark­miðið er starfs­fólk Flot­ans sé sýni­legt og börn og ung­ling­ar þekki þau og geti leitað skjóls hjá þeim ef þörf kref­ur. Yf­ir­leitt er þeim tekið vel þegar þau birt­ast að kvöld­lagi blá­klædd í merkt­um fatnaði, að sögn Hjör­leifs Steins Þóris­son­ar, verk­efna­stjóra og starfs­manns Flot­ans. 

Leiðin inn stutt og aðgengið mikið

Flot­inn hef­ur verið starf­andi í á fimmta ár, eða frá ár­inu 2020, en á þeim tíma hef­ur sú sú þróun orðið, að sögn Hjör­leifs, að leiðin inn í heim óæski­legr­ar hegðunar og fíkni­efna­neyslu hef­ur verið að stytt­ast.  

Er það í sam­ræmi við það sem barna­vernd­arþjón­ust­ur lands­ins hafa verið að sjá ger­ast og mbl.is hef­ur greint frá. Börn­in eru að verða yngri og neysl­an harðari á skemmri tíma. 

„Við get­um al­veg tekið und­ir það að þetta er að fær­ast neðar í aldri á síðustu árum,“ seg­ir Hjör­leif­ur, sem tek­ur þó fram að lang­flest­ir ung­ling­ar séu að standa sig vel og séu flott­ir í sem þeir séu að gera. 

Þetta séu ekki mörg börn eða ung­ling­ar sem sýni óæski­lega hegðun, of­beld­is­hegðun eða séu jafn­vel í neyslu. 

„Það sem við erum að sjá er að leiðin inn er orðin svo stutt og aðgengið er mikið. Það er það sem við höf­um áhyggj­ur af. Og sýni­leik­inn á neysl­unni er orðinn meiri. Oft var þetta svo­lítið falið, ung­linga­drykkj­an, en nú er viðhorfið meira að þeim sé meira sama,“ seg­ir Hjör­leif­ur. „Og teng­ing­ar mikl­ar í gegn­um sam­fé­lags­miðla,“ bæt­ir hann við.  

Oft sé um að ræða börn og ung­linga í viðkæmri stöðu sem eru leit­andi og fari tölu­vert á milli hverfa. 

Sam­fé­lags­miðlar spili stórt hlut­verk

Hverj­ar skýr­ing­arn­ar á þess­ari þróun geta verið, seg­ist Hjör­leif­ur ekki vera með á reiðum hönd­um, en hann er þó al­veg á því að sam­fé­lags­miðlar spili stórt hlut­verk. 

„Við erum með sam­fé­lags­miðla sem eru mjög opn­ir og með alls kon­ar upp­lýs­ing­ar sem eru ekki góðar fyr­ir ung­ling­ana okk­ar.“ 

Hvað Flot­ann varðar og þeirra aðkomu að mál­um þess­ara barna, sem far­in eru að sýna áhættu­hegðun, bend­ir Hjör­leif­ur á að Flot­inn sé fyrsta stigs þjón­usta sem reyni að gefa sig að hópn­um. Það þurfi hins veg­ar að stíga fast­ar niður og þar skipti for­varn­ir tölu­verðu máli. 

„Það sem við mynd­um vilja sjá er meiri þungi í snemm­tækri íhlut­un og grípa vel inn í. Þetta er að fær­ast neðar og þá þurf­um við að svara því og vera með úrræði til að grípa inn í fyrr.“ 

Kort­leggja „heita reiti“ 

Flot­inn, flakk­andi fé­lags­miðstöð, er samtarfs­verk­efni frí­stunda­miðstöðvanna í Reykja­vík og hef­ur það að mark­miði að styrkja fé­lags­lega stöðu ung­linga og skapa þeim aðstæður þar sem þeir geta notið æsku sinn­ar í ör­uggu um­hverfi. 

Hjá Flot­an­um starfa fé­lags­miðstöðvar­starfs­menn sem hafa þekk­ingu á hverj­um borg­ar­hluta fyr­ir sig. Yfir vet­ur­inn eru vakt­ir í miðri viku og svo á laug­ar­dags­kvöld­um í sam­starfi við önn­ur sveit­ar­fé­lög og kem­ur starfs­fólk úr fé­lags­miðstöðvum þaðan á vakt­ir.

Á sumr­in eru vakt­ir flest kvöld og einnig er reynt að manna vakt­ir þegar það er frí í skól­um, eins og um jól og páska. En það er sá tími sem börn og ung­ling­ar eru helst að leita sér að ein­hverju að gera, sér­stak­lega þegar veðrið er gott.  

„Það sem við erum að gera á hverri vakt er að við erum á ferðinni að skanna þessa heitu reiti, eins og þeir eru kallaðir. Þar sem börn og ung­ling­ar koma sam­an. Það er okk­ar vinna líka að kort­leggja þessa heitu reiti, hvar þeir eru og hvar gæti mynd­ast óæski­leg hópa­mynd­un,“  seg­ir Hjör­leif­ur.  

Kunna vel að lesa í aðstæður

„Þegar við erum að keyra svona á milli, þá hitt­um við hópa, það þarf ekk­ert endi­lega að vera þannig að það sé eitt­hvað bras á þess­um hóp­um. Við vilj­um að all­ir ung­ling­arn­ir okk­ar viti hvað flot­inn er og þau vita að þau geti leitað til okk­ar. Við erum mjög sýni­leg í blá­um fatnaði. Ég held við séum kom­in á þann stað núna að flest­ir þekkja þenn­an bláa lit sem er mjög já­kvætt.“ 

Hann seg­ir ung­ling­ana líka leita í skjól hjá starfs­fólki Flot­ans. 

„Það verður svo­lítið þannig, eins og í al­mennri fé­lags­miðstöð, þá er ákveðinn hóp­ur sem mæt­ir meira en aðrir og þá mynd­ast meiri tengsl. Við erum í þeirri stöðu að við erum búin að mynda góð tengsl við stór­an ung­linga­hóp í borg­inni, sem er já­kvætt,“ út­skýr­ir hann. 

Ein­hverj­ir í þeirra hópi eru í erfiðri og viðkvæmri stöðu. 

Þau reyni að nálg­ast hóp­ana og nýta sína þekk­ingu sem fé­lags­miðstöðvar­starfs­menn, vera hlý og mót­tæki­leg. 

„Mót­tök­urn­ar eru oft­ast mjög góðar og við höf­um ákveðin ró­andi áhrif á hóp­inn. Þegar við nálg­umst hópa þá er okk­ar mark­mið að taka stöðuna og kanna hvort allt er í góðu. Ef það er ekki allt í góðu og við finn­um að það er spenna eða sýni­leg neysla, þá reyn­um við að tryggja ör­yggi í hópn­um og hringj­um í viðeig­andi viðbragðsaðila,“ seg­ir Hjör­leif­ur. 

Starfs­fólk Flot­ans reyn­ir ekki að sker­ast í leik­inn ef ein­hver spenna er í hópn­um, enda þau hafa ekki vald til að grípa inn í aðstæður með nein­um hætti. Það er alltaf lög­regl­unn­ar að sinna því.  

„Við nýt­um okk­ar þekk­ingu í að róa niður ef það eru læti, eða passa um að það sé í góðu með alla,“ seg­ir Hjör­leif­ur. Starfs­fólk Flot­ans kunni vel að lesa í aðstæður. 

Hafa náð góðum ár­angri 

Góður ár­ang­ur hef­ur verið af starfi Flot­ans, en starfs­fólkið hef­ur náð góðri og mik­il­vægri yf­ir­sýn yfir ákveðinn hóp barna og ung­linga í Reykja­vík.  

„Við höf­um líka dæmi um að við hitt­um ein­hvern í þess­um hóp og mynd­um ákveðin tengsl og náum að hafa áhrif. Við höf­um hitt ein­hvern á vett­vangi og hitt­um viðkom­andi kannski aft­ur ári síðar og fáum að heyra að hann sé á betri stað. Það er ótrú­lega gott.“ 

Þau geri út á að leita að styrk­leik­um barn­anna og hvetja þau áfram, á svipaðan hátt og gert er inni í fé­lags­miðstöð.  

Þá seg­ir Hjör­leif­ur sýni­leika full­orðinna skipta miklu máli og yf­ir­leitt hafa já­kvæð áhrif. Það hafi sýnt sig að mik­il­vægt starf sé unnið fé­lags­miðstöðvum hverf­anna og í miðlægu vett­vangs­starfi þar sem starfs­fólk fé­lags­miðstöðvanna kem­ur sam­an. All­ir séu til­bún­ir að taka hönd­um sam­an ef eitt­hvað kem­ur upp á og erfitt ástand skap­ast á ein­hverj­um svæðum. 

„Svo höf­um við auðvitað Flot­ann og víða um borg­ina er hverfa- eða for­eldrarölt. Þetta allt skipt­ir ótrú­lega miklu máli,“ seg­ir Hjör­leif­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert