Sýnileiki fíkniefnaneyslu barna og unglinga er meiri en áður og svo virðist sem þeim sé meira sama þó til þeirra sjáist. Leiðin inn heim fíkniefnanna er styttri en áður og börn og unglingar sem þangað leita eru sífellt yngri.
Þetta er eitthvað sem starfsfólk Flotans, flakkandi félagsmiðstöðvar, hefur tekið eftir að hafi verið að breytast síðustu ár.
Flotinn hefur það verkefni að fara á milli hverfa í Reykjavíkurborg og hitta börn og unglinga, þar sem hópamyndun á sér stað, í þeim tilgangi að reyna að sporna við óæskilegri hegðun og mynda tengsl.
Með því hefur tekist að kortleggja svokallaða heita reiti, þar sem hópamyndun á sér stað. Þá hefur starfsfólk Flotans einnig séð árangur nást með einstaka börn sem hafa snúið við blaðinu, eftir að góð tengsl náðust á vettvangi.
Markmiðið er starfsfólk Flotans sé sýnilegt og börn og unglingar þekki þau og geti leitað skjóls hjá þeim ef þörf krefur. Yfirleitt er þeim tekið vel þegar þau birtast að kvöldlagi bláklædd í merktum fatnaði, að sögn Hjörleifs Steins Þórissonar, verkefnastjóra og starfsmanns Flotans.
Flotinn hefur verið starfandi í á fimmta ár, eða frá árinu 2020, en á þeim tíma hefur sú sú þróun orðið, að sögn Hjörleifs, að leiðin inn í heim óæskilegrar hegðunar og fíkniefnaneyslu hefur verið að styttast.
Er það í samræmi við það sem barnaverndarþjónustur landsins hafa verið að sjá gerast og mbl.is hefur greint frá. Börnin eru að verða yngri og neyslan harðari á skemmri tíma.
„Við getum alveg tekið undir það að þetta er að færast neðar í aldri á síðustu árum,“ segir Hjörleifur, sem tekur þó fram að langflestir unglingar séu að standa sig vel og séu flottir í sem þeir séu að gera.
Þetta séu ekki mörg börn eða unglingar sem sýni óæskilega hegðun, ofbeldishegðun eða séu jafnvel í neyslu.
„Það sem við erum að sjá er að leiðin inn er orðin svo stutt og aðgengið er mikið. Það er það sem við höfum áhyggjur af. Og sýnileikinn á neyslunni er orðinn meiri. Oft var þetta svolítið falið, unglingadrykkjan, en nú er viðhorfið meira að þeim sé meira sama,“ segir Hjörleifur. „Og tengingar miklar í gegnum samfélagsmiðla,“ bætir hann við.
Oft sé um að ræða börn og unglinga í viðkæmri stöðu sem eru leitandi og fari töluvert á milli hverfa.
Hverjar skýringarnar á þessari þróun geta verið, segist Hjörleifur ekki vera með á reiðum höndum, en hann er þó alveg á því að samfélagsmiðlar spili stórt hlutverk.
„Við erum með samfélagsmiðla sem eru mjög opnir og með alls konar upplýsingar sem eru ekki góðar fyrir unglingana okkar.“
Hvað Flotann varðar og þeirra aðkomu að málum þessara barna, sem farin eru að sýna áhættuhegðun, bendir Hjörleifur á að Flotinn sé fyrsta stigs þjónusta sem reyni að gefa sig að hópnum. Það þurfi hins vegar að stíga fastar niður og þar skipti forvarnir töluverðu máli.
„Það sem við myndum vilja sjá er meiri þungi í snemmtækri íhlutun og grípa vel inn í. Þetta er að færast neðar og þá þurfum við að svara því og vera með úrræði til að grípa inn í fyrr.“
Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð, er samtarfsverkefni frístundamiðstöðvanna í Reykjavík og hefur það að markmiði að styrkja félagslega stöðu unglinga og skapa þeim aðstæður þar sem þeir geta notið æsku sinnar í öruggu umhverfi.
Hjá Flotanum starfa félagsmiðstöðvarstarfsmenn sem hafa þekkingu á hverjum borgarhluta fyrir sig. Yfir veturinn eru vaktir í miðri viku og svo á laugardagskvöldum í samstarfi við önnur sveitarfélög og kemur starfsfólk úr félagsmiðstöðvum þaðan á vaktir.
Á sumrin eru vaktir flest kvöld og einnig er reynt að manna vaktir þegar það er frí í skólum, eins og um jól og páska. En það er sá tími sem börn og unglingar eru helst að leita sér að einhverju að gera, sérstaklega þegar veðrið er gott.
„Það sem við erum að gera á hverri vakt er að við erum á ferðinni að skanna þessa heitu reiti, eins og þeir eru kallaðir. Þar sem börn og unglingar koma saman. Það er okkar vinna líka að kortleggja þessa heitu reiti, hvar þeir eru og hvar gæti myndast óæskileg hópamyndun,“ segir Hjörleifur.
„Þegar við erum að keyra svona á milli, þá hittum við hópa, það þarf ekkert endilega að vera þannig að það sé eitthvað bras á þessum hópum. Við viljum að allir unglingarnir okkar viti hvað flotinn er og þau vita að þau geti leitað til okkar. Við erum mjög sýnileg í bláum fatnaði. Ég held við séum komin á þann stað núna að flestir þekkja þennan bláa lit sem er mjög jákvætt.“
Hann segir unglingana líka leita í skjól hjá starfsfólki Flotans.
„Það verður svolítið þannig, eins og í almennri félagsmiðstöð, þá er ákveðinn hópur sem mætir meira en aðrir og þá myndast meiri tengsl. Við erum í þeirri stöðu að við erum búin að mynda góð tengsl við stóran unglingahóp í borginni, sem er jákvætt,“ útskýrir hann.
Einhverjir í þeirra hópi eru í erfiðri og viðkvæmri stöðu.
Þau reyni að nálgast hópana og nýta sína þekkingu sem félagsmiðstöðvarstarfsmenn, vera hlý og móttækileg.
„Móttökurnar eru oftast mjög góðar og við höfum ákveðin róandi áhrif á hópinn. Þegar við nálgumst hópa þá er okkar markmið að taka stöðuna og kanna hvort allt er í góðu. Ef það er ekki allt í góðu og við finnum að það er spenna eða sýnileg neysla, þá reynum við að tryggja öryggi í hópnum og hringjum í viðeigandi viðbragðsaðila,“ segir Hjörleifur.
Starfsfólk Flotans reynir ekki að skerast í leikinn ef einhver spenna er í hópnum, enda þau hafa ekki vald til að grípa inn í aðstæður með neinum hætti. Það er alltaf lögreglunnar að sinna því.
„Við nýtum okkar þekkingu í að róa niður ef það eru læti, eða passa um að það sé í góðu með alla,“ segir Hjörleifur. Starfsfólk Flotans kunni vel að lesa í aðstæður.
Góður árangur hefur verið af starfi Flotans, en starfsfólkið hefur náð góðri og mikilvægri yfirsýn yfir ákveðinn hóp barna og unglinga í Reykjavík.
„Við höfum líka dæmi um að við hittum einhvern í þessum hóp og myndum ákveðin tengsl og náum að hafa áhrif. Við höfum hitt einhvern á vettvangi og hittum viðkomandi kannski aftur ári síðar og fáum að heyra að hann sé á betri stað. Það er ótrúlega gott.“
Þau geri út á að leita að styrkleikum barnanna og hvetja þau áfram, á svipaðan hátt og gert er inni í félagsmiðstöð.
Þá segir Hjörleifur sýnileika fullorðinna skipta miklu máli og yfirleitt hafa jákvæð áhrif. Það hafi sýnt sig að mikilvægt starf sé unnið félagsmiðstöðvum hverfanna og í miðlægu vettvangsstarfi þar sem starfsfólk félagsmiðstöðvanna kemur saman. Allir séu tilbúnir að taka höndum saman ef eitthvað kemur upp á og erfitt ástand skapast á einhverjum svæðum.
„Svo höfum við auðvitað Flotann og víða um borgina er hverfa- eða foreldrarölt. Þetta allt skiptir ótrúlega miklu máli,“ segir Hjörleifur.