Forsvarsmenn Kvikmyndaskóla Íslands lýsa mikilli óánægju með þá ákvörðun Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, að nemendur skólans verði fluttir yfir í Tækniskólann og útskrifist þaðan. Stjórnsýsla ráðuneytisins er hrein valdníðsla að þeirra mati.
Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskólans, sendi fjölmiðlum yfirlýsingu vegna málsins í kvöld en undir hana ritar hún ásamt kennurum og starfsfólki skólans. Segir í yfirlýsingunni að sú leið sem mennta- og barnamálaráðuneytið kynnti fyrr í dag endurspegli mikið þekkingarleysi á námi í kvikmyndagerð.
„Það ætti flestum að vera ljóst eftir undanfarnar vikur að við, kennarar og starfsfólk Kvikmyndaskóla Íslands erum tilbúin til að leggja mikið á okkur til að verja hag okkar nemenda og um leið verja þá miklu fagmennsku og 30 ára reynslu sem Kvikmyndaskóli Íslands býr yfir. Það er samdóma mat okkar að sú leið sem barna- og menningarmálaráðuneytið hefur nú kynnt, sé ekki bara illa ígrunduð, heldur endurspegli mikið þekkingarleysi á námi í kvikmyndagerð og beri hag nemenda okkar á engan hátt fyrir brjósti.
Þessi svokallaða lausn barna-og menntamálaráðuneytisins er engin lausn, heldur að okkar mati hrein valdníðsla. Það er erfitt að sjá hvað liggur að baki eða hvert markmið ráðuneytisins er,“ segir í yfirlýsingunni.
„Ráðuneytið ætlar núverandi nemendum Kvikmyndaskólans að ljúka yfirstandandi misseri í deildum Tækniskóla Íslands, sem eiga fátt skylt við nám í kvikmyndagerð. Tækniskólanum er svo ætlað að útfæra sitt eigið kvikmyndanám, sem er vitað mál að tekur langan tíma.
Það er algjörlega litið framhjá sérstöðu kvikmyndanáms og margra ára viðræðum og vinnu Kvikmyndaskólans og yfirvalda um að færa nám skólans á háskólastig, að ekki sé talað um allan þann kostnað sem ríkisvaldið hefur sett í þá vinnu. Tækniskólinn starfar á framhaldsskólastigi.
Við minnum á að Kvikmyndaskóli Íslands hefur útskrifað yfir 600 hundruð nemendur úr sérhæfðu námi í kvikmyndagerð. Kannanir hafa sýnt að meirihluti þeirra nemenda starfar alfarið við kvikmyndagerð að námi loknu og fjölmargir því til viðbótar starfa í atvinnugreinum sem grundvallast á sérþekkingu þeirra úr kvikmyndanáminu við skólann,“ segir þar ennfremur.
Þá segir að námskrá skólans, uppbygging sérdeildanna og skipulag samstarfs þeirra í milli hafi þróast á löngum tíma af fagmennsku sem komið hafi Kvikmyndaskólanum á lista með sterkum erlendum kvikmyndaháskólum eftir alþjóðlegar úttektir og það þrátt fyrir að skólinn hafi ekki enn fengið að starfa á háskólastigi.
„Skólinn hefur haft á að skipa mörgu af okkar hæfasta kvikmyndagerðafólki í hópi kennara og stundakennara. Tengingin við íslenskan kvikmyndaiðnað er sterk og það hefur sýnt sig að þörfin fyrir útskrifaða nemendur með þá fagþekkingu sem skólinn veitir er mikil, svo þess að hægt sé að manna íslensk og erlend verkefni. Þá má minna á að i hópi útskrifaðra nemenda eru handhafar fjölda Edduverðlauna, Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og tilnefningar til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna svo það sé nefnt.
Það er okkar einlæga von að ekki verði farið í þá vegferð sem barna- og menntamálaráðuneytið hefur boðað í dag.“