This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Nýr bókaklúbbur hefur nú göngu sína undir merkjum Spursmála. Þar eru teknar fyrir bækur sem hafa mótandi áhrif á samfélagið og dýpkað geta skilning fólks á þróun samfélagsins, bæði hér heima og erlendis.
Á vettvangi klúbbsins verður ný bók tekin fyrir í hverjum mánuði og henni gerð skil með ýmsum hætti. Ritaðar verða greinar um efni og innihald þeirra og þá verða tekin viðtöl við höfunda, þýðendur og sérfræðinga sem veitt geta betri innsýn í það hvaða fróðleik og þekkingu bækurnar miðla.
Þótt bóklestur hafi átt undir högg að sækja á síðustu árum hefur enginn miðill komið í skiptum fyrir vel ritaða bók. Í því formi er með skilvirkum hætti hægt að koma fram upplýsingum af öllu tagi sem setja hluti í rétt samhengi fyrir fólk.
Bókaklúbbur Spursmála á í öflugu samstarfi við fyrirtæki sem vilja stuðla að auknum lestri og áhuga á bókum. Þetta eru útgerðarfélagið Brim, sem hefur lagt mikla áherslu á íslenskukennslu á sínum vettvangi, Penninn/Eymundsson, stærsta bókaverslun landsins, lækningavörufyrirtækið Kerecis sem lagt hefur mikla áherslu á eflingu íslenskrar tungu og Samsung en síðastnefndar fyrirtækið hefur meðal annars lagt mikla áherslu á að íslenskan sé aðgengileg í snjalltækjum nútímans.
Þátttaka í klúbbnum er meðlimum að kostnaðarlausu. Aðildin veitir hins vegar afslætti hjá Pennanum Eymundsson á þeim bókum sem teknar eru fyrir á hverjum tíma, auk forgangs að því efni sem gefið er út í tengslum við þær á vettvangi klúbbsins. Klúbbmeðlimir munu einnig njóta forgangs á þá viðburði sem klúbburinn stendur fyrir en þar á meðal eru viðtöl við höfunda og aðra þá sem sérþekkingu hafa á því efni sem til umfjöllunar er hverju sinni.
Fyrsta bókin sem tekin verður fyrir á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála er ævisaga Geirs H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Það er bók sem vakti verðskuldaða athygli í jólabókaflóðinu síðasta en þar fer Geir yfir feril sinn og ævi. Í bókinni er nýju ljósi varpað á nútímaatburði sem mótað hafa sögu lands og þjóðar. Þar er einkum vísað til bankahrunsins sem dundi á þjóðinni árið 2008.
Þeir sem vilja skilja hvað gerðist örlagaríka daga í september og október 2008 geta ekki látið þessa bók fram hjá sér fara og Bókaklúbburinn hyggst auka enn á þá þekkingaröflun sem felst í því að renna augum yfir frásögn Geirs.