Veitingastaðurinn Mandi hefur verið lokaður undanfarnar tvær vikur. Á Facebook-síðu Mandi segir að lokað sé vegna skipulagsbreytinga.
Að sögn Ragnheiðar Þengilsdóttur, stjórnarformanns Veitingafélagsins ehf. og fráfarandi eiganda veitingastaðarins, er ástæðan sú að staðurinn hefur verið seldur til nýrra eigenda.
Hún vildi ekki gefa upp hver nýr eigandinn er en samkvæmt heimildum mbl.is er nýr eigandi staðarins Hlal Jarah sem jafnframt stofnaði Mandi.
Veitingafélagið ehf., sem meðal annars rekur Hlöllabáta, keypti Mandi fyrir um tveimur árum. Veitingafélagið er dótturfélag Fasteflis ehf. sem er í eigu Óla Vals Steindórssonar sem jafnframt er eiginmaður Ragnheiðar.
Mandi hefur boðið upp á mið-austurlenskan mat á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, í Hæðasmára 6, Faxafeni 9 og Veltusundi 3b.
Í frétt Vísis um málið segir að Mandi á Ingólfstorgi hafi opnað fyrr í dag og að Mandi í Faxafeni muni opna á næstu vikum.