Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar hvort fyrirtæki innan Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) hafi viðhaft ólöglegt samráð við stofnun stéttarfélagsins Virðingar.
Meinta samráðið getur varðað bæði 10. og 12. gr. samkeppnislaga en alvarleg brot varða sektargreiðslum eða fangelsi.
Þetta staðfestir Eva Ómarsdóttir, verkefnastjóri hjá SKE.
Eva segir erindi hafa borist frá Alþýðusambandi Íslands, Eflingu og Starfsgreinasambandinu 14. mars vegna meints ólögmæts samráðs fyrirtækja í SVEIT.
Í erindinu kom fram að Virðing væri ekki raunverulegt stéttarfélag heldur skúffufélag stofnað af hópi atvinnurekenda í þeim tilgangi að lækka laun starfsfólks.
SKE hefur nú, eins og fyrr segir, hafið rannsókn á þessu meinta samráði. Hefur eftirlitið sent bréf til Aðalgeirs Ásvaldssonar framkvæmdastjóra vegna SVEIT, Valdimars Leós Friðrikssonar framkvæmdastjóra vegna Virðingar, Hrefnu Rósar Sætran og Björns Árnasonar vegna Skúla Craft Bar og Magnúsar Scheving og Hrefnu Sverrisdóttur vegna ROK Restaurant. Þess má geta að Hrefna Sverrisdóttir er
31. mars sendi SKE upplýsingabeiðni á þá aðila sem eiga hlut að máli og hafa þeir til 16. apríl til að bregðast við.
„Almennt leiðarstef samkeppnislaga er að hvers kyns innbyrðis samráð fyrirtækja sé óheimilt nema það sé sérstaklega heimilað í tilgreindum undantekningartilvikum. SKE áréttar í erindi sínu að í 2. gr. samkeppnislaga sé vissulega kveðið á um undanþágu fyrir samráð fyrirtækja vegna kjarasamninga,“ segir í tilkynningu Eflingar um rannsóknina.
„Hins vegar er tekið fram að fyrir utan „raunverulega kjarasamninga“ eigi allar kvaðir samkeppnisreglna fyllilega við. Áréttað er að samráð fyrirtækja sem er til þess fallið að rýra kjör starfsfólks, án þess að vera raunveruleg kjarasamningsgerð, geti þannig falið í sér brot á samkeppnislögum,“ segir þar enn fremur.
Efling segir að SKE óski eftir gögnum sem varða stofnun Virðingar og kjarasamninginn sem SVEIT gerði við félagið, sem og öll samskipti milli þeirra er varða hann.
„Farið er yfir í sex liðum hvaða gögn geti verið um að ræða, og er þar m.a. rætt um tölvupósta, önnur rafræn samskiptagögn, fundargerðir og minnisblöð.
Beðið er um að gögn úr fórum starfsmanna og stjórnarmanna séu kölluð fram og afhent. Áréttað er að ekki aðeins sé átt við tölvupósta af lénum umræddra félaga heldur einnig tölvupósta til þessara aðila frá öðrum netföngum, póstforritum eða samfélagsmiðlum.
Er þess nánar tiltekið óskað að viðkomandi samskipti verði kölluð fram með rafrænni leit og að viðkomandi leit verði framkvæmd, henni lýst og hún staðfest af kerfisstjóra eða eftir atvikum af sjálfstæðum þjónustuaðila,“ segir í tilkynningu Eflingar.