Icelandair hóf í gær flug til Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum. Nashville er átjándi áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum en þangað verður flogið fjórum sinnum í viku til októberloka.
Þetta segir í tilkynningu frá Icelandair.
Segir þar enn fremur að í tengslum við nýju flugleiðina hafi samstarf við bandaríska flugfélagið Southwest Airlines verið útvíkkað og verður nú hægt að bóka tengiflug með Icelandair og Southwest í gegnum Nashville- og Denver-flugvelli auk Baltimore-flugvallar.
Kemur fram að Southwest reki umfangsmestu áætlun allra flugfélaga á flugvellinum í Nashville og fljúgi til um 90 áfangastaða í Norður-Ameríku. Þannig muni aukið samstarf opna þægilegar tengingar frá Nashville áfram til fjölda áfangastaða í Norður-Ameríku.
„Það er mjög ánægjulegt að bæta Nashville við okkar öfluga leiðakerfi og við erum sérstaklega ánægð með þær góðu viðtökur sem við höfum fengið frá viðskiptavinum hér á landi og beggja vegna Atlantshafsins. Svo góðar voru viðtökurnar að við tókum ákvörðun um að hefja flugið fimm vikum fyrr en upphaflega var áætlað,“ er haft eftir Tómasi Ingasyni, framkvæmdastjóra tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair.
„Nashville er spennandi nýr áfangastaður og er borgin fræg fyrir tónlist, menningu og matargerð. Hún er oft nefnd tónlistarborgin, enda er hún höfuðborg kántrítónlistar en hún er ekki síður fræg fyrir popp, rokk, gospel og jasstónlist. Í RCA Studio B, sem nefnt hefur verið heimili þúsund smella, er til að mynda hægt að sjá hvar Elvis Presley, Dolly Parton, Roy Orbison, Everly-bræður og margir fleiri tóku upp sum sinna frægustu laga,“ segir í tilkynningu Icelandair.