Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og varaformaður flokksins, er nýr formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.
Katrín var sú eina sem bauð sig fram og var því sjálfkjörin. Snýr hún því aftur í stjórn flokksins, en hún var varaformaður Samfylkingarinnar á árunum 2013 til 2016.
Guðný Birna Guðmundsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, er nýr ritari flokksins. Hún var kjörin á landsfundi flokksins í Grafarvogi í dag.
Guðný Birna hlaut nánar til tekið 76,47 prósent atkvæða í kjörinu, en Gylfi Þór Gíslason, formaður verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar, hlaut 21,67 prósent atkvæða. 1,86 prósent greiddra atkvæða voru auð.