Ævisaga Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vakti mikla athygli þegar hún kom út síðastliðið haust. Það er ekki síst fyrir þá dóma sem hann fellir um samtíðarmenn sem bókin er áhugaverð.
Bókin er sú fyrsta sem tekin er fyrir á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála sem hefur göngu sína nú í aprílmánuði.
Geir hefur alla tíð verið þekktur fyrir prúðmennsku og gífuryrði hafa ekki verið sérgrein hans á hinu pólitíska sviði. Það er ekki síst þess vegna sem fyrnefndir dómar um menn og málefni vekja sérstaka athygli.
Oft þarf að lesa nokkuð milli línanna þegar kemur að þessum þætti í frásögn Geirs en það gerir hana ekki síður skemmtilega. Síðar í mánuðinum verður í sérstakri grein fjallað um þetta atriði og mynd dregin upp af gagnrýni, beinni og óbeinni, sem hann heldur fram í frásögn sinni.
Í öðrum tilvikum er Geir nokkuð bersögull þegar kemur að mati á mönnum og málefnum. Það á til dæmis við í tilviki Össurar Skarphéðinssonar sem sat í ríkisstjórn Geirs sem var við völd frá 2007-2009.
Fyrst þegar Geir víkur orði að Össur í bók sinni segir hann:
„Össur Skarphéðinsson varð þingflokksformaður Alþýðuflokksins 1991, þá nýkjörinn þingmaður, og var það upphafið að okkar samstarfi. Hann hafði verið tveimur árum á eftir mér í MR en við þekktumst ekki á þeim tíma. Ég komst fljótt að því að Össur var ólíkindatól og gat verið viðskotaillur og erfiður í skapi.“
Síðar í bókinni lýsir Geir samskiptum sínum við Össur og eru þær lýsingar margar hverjar nokkuð mergjaðar.
Ekki er loku fyrir það skotið að þessi mál og önnur verði til umræðu þegar Geir sest niður á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála og ræðir ævisöguna og þann lærdóm sem draga má af viðburðaríku lífshlaupi hans. Klúbbfélagar munu fá nánari tíðindi af þeim viðburði þegar nær dregur.