Kennarar og stjórnendur í grunnskólum í Breiðholti blása til námstefnu þann 29. apríl sem kallast Íslenskubrú: mótun og miðlun íslensku sem annars máls. Verður hún haldin í Breiðholtsskóla á milli klukkan 15 og 17.30.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Grunnskólar í Breiðholti hlutu styrk á síðasta ári frá mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrir verkefnið Íslenskubrú Breiðholts en markmið þess er að búa til verkefni, leiðbeiningar, áætlanir, námsmat og fleira til að kennarar hafi fleiri verkfæri og tól til þess að kenna íslensku sem annað tungumál.
Nú er verkefnið að klárast og er þá blásið til námstefnunnar svokölluðu.
Þar verður m.a. heimasíða opnuð þar sem allar afurðir verkefnisins verða landsmönnum aðgengilegar.
„Þessi námstefna hentar kennsluráðgjöfum og verkefnastjórum í ÍSAT sérstaklega vel sem og kennurum sem kenna íslensku sem annað mál. Málstofur eru í höndum kennara sem kenna íslensku sem annað mál í Breiðholti og koma þeir úr öllum grunnskólum hverfisins. Í málstofunum munu kennarar kynna og sýna frá kennslu íslensku sem annars máls, allt frá hugmyndum að verkefnum, til skipulags kennslu.“