Margrét Erla Maack er brautryðjandi í því sem kallast burlesque. Ekki er til íslenskt orð yfir listformið sem er lítið, stutt grínatriði sem blandar saman kynþokka, gríni og oft ádeilu. 2007 höguðu örlögin því svo að Margrét dvaldi í New York í þrjá mánuði og kynntist þar burlesque. Þau kynni urðu svo til þess að hún setti upp slíkar sýningar hér.
Í viðtali í Dagmálum segir hún að það hafi vissulega verið stórt skref að setja upp burlesque hér á landi, enda eru nektarsýningar bannaðar á Íslandi og burlesque má lýsa sem nektarsýningu.
„Í upphafi þurfti ég að aftengja þetta nektinni út af lagalegu hliðinni. En núna erum við komin bara aðeins lengra og það hjálpar okkur líka auðvitað að sýningarnar mínar eru í Þjóðleikhúskjallaranum.
Það gerðist samt í haust að löggan ætlaði að reyna að stoppa sams konar sýningar á Kiki. Það kvartaði víst einhver viðkvæmur og ég held að það hafi nú haft eitthvað að segja, það var á hinsegin stað. En þær sýningar voru ekkert mikið öðruvísi heldur en það sem ég gerði á árshátíð lögreglunnar fyrir ekkert allt of löngu síðan.
Burlesque er svo líkamlegt, það er nekt í alls konar samhengi. Auðvitað í einhverju kynferðislegu samhengi en fyrst og fremst sem einhverskonar grín eða paródía. Og kannski afbygging af heilagleika nektarinnar. Við segjum í kynningarefni hvers konar sýning þetta er, bara til þess að fólk sem veit að það fílar þetta ekki komi ekki. Við viljum ekki troða einhverju upp á fólk sem það hefur engan áhuga á, en kalla til fólks sem hefur gaman af því.“
Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.