Persónuvernd hefur borist formleg kvörtun frá fyrrverandi tengdamóður barnsföður Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, vegna meðferðar persónuupplýsinga sinna í Stjórnarráði Íslands.
Þetta staðfestir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í samtali við mbl.is.
Stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur stofnað frumkvæðismál vegna meints leka úr forsætisráðuneytinu varðandi erindi tengdamóðurinnar fyrrverandi, Ólafar Björnsdóttur, til forsætisráðherra sem varðaði málefni Ásthildar Lóu.
Helga Þórisdóttir segir að stofnunin muni gera hvað hún geti til að afgreiða erindið hratt.
„Þetta kom bara inn í gær og páskar eru að bresta á,“ segir Helga og bætir því við að hugsanlega þurfi að kalla eftir frekari upplýsingum, sem muni þá lengja málsmeðferðina eitthvað.
Helga segir þann hátt vanalega vera á þegar mál koma inn til Persónuverndar að þau fari í ákveðinn farveg og það sé þeirra að meta mikilvægi þeirra.
„Þegar maður fær mál sem varða mikla hagsmuni í samfélaginu og eru mikið í umræðunni þá veldur það gríðarlegu álagi á starfsemina ef við erum að hanga á slíkum málum.
Þannig að við reynum að koma þeim aðeins í forgang til að hafa vinnufrið,“ segir hún og vísar þar til margra fyrirspurna sem berast stofnuninni vegna málanna.