Ekki er að sjá af þingstörfunum til þess að stjórnarliðið sé til í þær nætursetur og þingstörf fram á sumar, sem kann að þurfa til þess að afgreiða helstu þingmál ríkisstjórnarinnar, segja viðmælendur Dagmála um pólitíkina fram undan.
Þeir Stefán Pálsson sagnfræðingur og Gísli Freyr Valdórsson hlaðvarpsstjóri Dagmála telja að þar muni reyna á það hve þingreyndir og vígreifir þingmennirnir séu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar búi yfir mikilli reynslu, en stjórnarliðið hafi til þessa verið viðkvæmt fyrir minnstu töfum, sem truflað gætu kvöldmatinn hjá því.
Það sem af er þingi hefur ríkisstjórnarflokkunum hins vegar ekki gengið vel að þoka sínum stóru málum áfram.
Þetta er meðal þess, sem fram kemur í Dagmálum í dag, þar sem þeir Stefán og Gísli Freyr ræða um pólitíkina, sem nú er að fara í páskafrí. Dagmál eru opin öllum áskrifendum, en horfa má á hann í heild sinni með því að smella hér.
Gísli Freyr telur að Kristrún Frostadóttir hafi valið sér viðureignir í þinginu af kostgæfni og gengið ágætlega við það. Hins vegar virðist stjórnarliðið skorta þá skylmingameistara og slagsmálahunda, sem þurfi til þess að halda stjórnarandstöðunni í skefjum.
„Sigurjón Þórðarson getur ekki verið einu slagsmálahundurinn,“ segir Gísli, en Stefán tekur undir það og bendir á að hann sé frekar stefnulaus í sínum snerrum.
Hins vegar bendir Stefán á að stjórnarliðið eigi Dag B. Eggertsson óþreyttan á hliðarlínunni, en svo virðist sem forsætisráðherra vilji ekki leyfa honum að láta ljós sitt skína.