Líftæknifyrirtækið Ísteka ehf., sem vinnur hormónalyf úr blóði fylfullra mera, fordæmir hvers kyns ofbeldi gagnvart mönnum og dýrum, sér í lagi gagnvart þeim hryssum sem hráefni framleiðslu fyrirtækisins er fengið úr, að segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.
Tilefnið er upptökur sem birtast í nýrri mynd dýraverndunarsamtakanna AWF/TSB, þar sem sýnt er fram á ofbeitingu valds gagnvart blóðmerarhryssum. Samtökin hafa aflað upplýsinga um slæman aðbúnað við blóðtöku úr hryssum á íslenskum bæjum frá árinu 2024 og vilja þau meina að ný skýrsla um stöðuna, frá haustinu 2024, sýni fram á að enn viðgangist ill meðferð á dýrum við blóðtöku.
Samtökin hafa meðal annars safnað myndefni með því að koma upp myndavélum við bæi þar sem blóðmerarhald er stundað.
Í yfirlýsingu Ísteka segir að fyrirtækið hafi þegar tekið upp og afgreitt mál vinnumanns á einum þeirra sex bæja sem samtökin fylgdust með.
„Bærinn fær að selja blóð á komandi sumri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. M.a. mun viðkomandi vinnumaður ekki vinna við blóðtökur árið 2025. Hafi hann áhuga á að gera það síðar verður honum gert að fara í gegnum formlega endurþjálfun. Komi aftur upp atvik um ofbeitingu valds á þessum bæ verður samningi sagt upp fyrirvaralaust. Þá verður myndavélaeftirlit innleitt með blóðtökum á bænum þetta árið,“ segir þar.
Þá er tekið fram að önnur atvik sem fram komi í myndinni teljist annað hvort ekki brot eða séu ekki þess eðlis að hægt sé að segja með vissu að um brot hafi verið að ræða.
Bæði Ísteka og bændur víða um land séu mjög hugsi yfir vinnubrögðum sem samtökin viðhafi í starfsemi sinni er varðar niðursetningu njósnabúnaðar í næsta nágrenni við heimili bænda.
„Sannleikurinn er sá að bara á síðasta ári söfnuðu samtökin 50 klst. af efni úr launsátri með myndavélum sem komið var fyrir án vitneskju bænda. Samanlagt telur upptekið efni úr launsátri mörg hundruð klukkustundir af lífi fólks sem er tekið upp og meðhöndlað í óþökk og án vitundar þeirra.“
Þá sé því haldið fram að ofbeldi gagnvart hryssum sé samofið framleiðsluferli fyrirtækisins, þó að það liggi fyrir að Ísteka taki mjög hart á öllum slíkum tilvikum sem upp komi, en það hafi fyrirtækið útskýrt margsinnis.
Hér má sjá tveggja tíma langt óklippt öryggismyndband frá blóðtöku sem Ísteka hvetur fólk til að horfa á og mynda sér skoðun.
Þá er farið yfir nokkrar fullyrðingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum, sem fyrirtækið vill leiðrétta.
Blóðtakan gengur ekki nærri hryssunum
Haldið er fram að blóðtakan gangi langt umfram alþjóðleg viðmið. Hið rétta er að það eru engin samræmd viðmið til um blóðtökur úr hryssum. Á Íslandi er stuðst við íslenska aðferð sem hefur verið notuð með góðum árangri í yfir 40 ár. Hún er mjög áþekk þeim aðferðum sem þekkjast í þeim löndum þar sem þessi starfsemi er eða hefur verið og gengur síst lengra. Blóðnytjahryssur hér á landi eru almennt mjög heilbrigðar bæði innan og utan söfnunartímabils og það eru folöld þeirra einnig. Það er eitt og sér augljóst merki um að ekki sé gengið nærri þeim.
Hormónið er lítið notað til að auka frjósemi svína
Því er haldið fram að eCG/PMSG sé notað til að auka frjósemi svína og leiða af sér ónáttúrulega stór got sem svo leiði af sér afleidd dýravelferðarvandamál. Háskammtameðferðir má nota til að auka fjölda eggja en þeim er venjulega ekki beitt í svínaeldi. Frjósemi ræktaðra svínastofna er nú þegar svo mikil að aukin frjósemi yrði flestum bændum til tjóns.
Hið rétta er að við notkun í svínaeldi er eCG/PMSG fyrst og fremst notað til stýringar á gangmálum. Stýring gangmála hefur í för með sér margvísleg og mjög jákvæð áhrif, s.s. minnkað vist- og kolefnisspor landbúnaðarins, aukna velferð og minni þörf fyrir lyfjagjöf samfara jafnari aldursdreifingu í uppeldishópum. Þessi einstaka og græna sameind hefur marga mikilvæga kosti fram yfir aðrar aðferðir sem einnig er beitt, t.a.m. langan verkunartíma og breiða virkni. Engin önnur lyf á markaði hafa sömu virkni.
Foldaldakjöt vinsælt á diski landsmanna
Því er haldið fram að folöld séu óþörf aukaafurð blóðnytjahryssa. Tekjur af blóði og tekjur af folöldum eru hvor um sig mikilvægar stoðir í rekstri búa sem selja þessar afurðir. Löng hefð er fyrir neyslu folaldakjöts á Íslandi og verið nokkuð jöfn í áranna rás. Hér eru á bilinu fimm til sex þúsund folöldum er að meðaltali slátrað árlega. Fyrir 15-20 árum keypti Ísteka blóð úr einungis litlum hluta þessa mengis en með árunum hefur sá hluti aukist með augljósri hagkvæmni fyrir viðkomandi bú. Það mætti því frekar segja að blóðsöfnun sé aukaafurð folaldaframleiðslu frekar en öfugt. Það er þó þannig að verðmyndun blóðs hefur verið mun örari til hækkunar en folaldakjöts og er það í dag stærri hlutur tekna af nytjahryssum.
Ennfremur er því haldið fram að starfsemina verði að banna á grundvelli velferðar dýranna sem blóði er safnað úr. Augljós afleiðing þess væri að bændur myndu fæstir halda áfram að halda þessar skepnur sem hluta af sínum bústofni, þeim yrði slátrað og folaldakjötsframleiðsla myndi leggjast af að mestu leyti. Erfitt er að heimfæra slíka útrýmingu á lífi upp á dýravelferð.
Ekki bönnuð starfsemi í öðrum löndum
Iðulega er fullyrt að þessi starfsemi viðgangist ekki annars staðar en á Íslandi og stundum er það orðað sem svo að hún sé hvergi annars staðar leyfð. Rétt er að benda á að framleiðslan er hvergi bönnuð svo við vitum til en einnig að almennt eru ekki gefin út leyfi fyrir starfsemi sem ekki er sótt um leyfi fyrir og ekki áform um að stunda. Ástæða þess að þessi framleiðsla er á Íslandi en ekki í nágrannalöndum okkar er sú að hvergi annars staðar í álfunni eru jafnmörg og stór stóð haldin á eins hagkvæman hátt og hér. Mikil menning er fyrir stóðhaldi og stóðrekstri hvers konar hér sem ekki þekkist í löndunum í kringum okkur. Fara þarf til landmikilla og hrossmargra landa í öðrum heimsálfum til að finna sambærilegar aðstæður og hér.
Gagnrýnt er að reglugerð um notkun á dýrum í vísindaskyni sé ekki að fullu leyti innleidd hvað varðar blóðsöfnun úr hryssum. Á því liggja fyrir eðlilegar stjórnsýslulegar skýringar og þær eru að leyfi Ísteka skv. fyrra regluverki er enn í gildi. Fyrra regluverk er raunar bæði sértækara og nákvæmara en það sem yfirvöld hafa ákveðið að taki við og því er vandséð hvaða jákvæðu áhrif á líf blóðgefandi hryssa reglugerð um notkun dýra í vísindaskyni hefur. Því skal haldið til haga að Ísteka telur ákvörðun um að greinin skuli falla undir fyrrgreint regluverk vera ranga.