Samningi sagt upp ef ofbeldi er aftur beitt

Dýraverndundarsamtökin vilja meina að enn viðgangist ill meðferð á dýrum …
Dýraverndundarsamtökin vilja meina að enn viðgangist ill meðferð á dýrum við blóðtöku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líf­tæknifyr­ir­tækið Ísteka ehf., sem vinn­ur horm­óna­lyf úr blóði fylfullra mera, for­dæm­ir hvers kyns of­beldi gagn­vart mönn­um og dýr­um, sér í lagi gagn­vart þeim hryss­um sem hrá­efni fram­leiðslu fyr­ir­tæk­is­ins er fengið úr, að seg­ir í yf­ir­lýs­ingu frá fyr­ir­tæk­inu.

Til­efnið er upp­tök­ur sem birt­ast í nýrri mynd dýra­vernd­un­ar­sam­tak­anna AWF/​TSB, þar sem sýnt er fram á of­beit­ingu valds gagn­vart blóðmer­ar­hryss­um. Sam­tök­in hafa aflað upp­lýs­inga um slæm­an aðbúnað við blóðtöku úr hryss­um á ís­lensk­um bæj­um frá ár­inu 2024 og vilja þau meina að ný skýrsla um stöðuna, frá haust­inu 2024, sýni fram á að enn viðgang­ist ill meðferð á dýr­um við blóðtöku.

Sam­tök­in hafa meðal ann­ars safnað mynd­efni með því að koma upp mynda­vél­um við bæi þar sem blóðmer­ar­hald er stundað.

Fær ekki að vinna við blóðtök­ur

Í yf­ir­lýs­ingu Ísteka seg­ir að fyr­ir­tækið hafi þegar tekið upp og af­greitt mál vinnu­manns á ein­um þeirra sex bæja sem sam­tök­in fylgd­ust með.

„Bær­inn fær að selja blóð á kom­andi sumri að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum. M.a. mun viðkom­andi vinnumaður ekki vinna við blóðtök­ur árið 2025. Hafi hann áhuga á að gera það síðar verður hon­um gert að fara í gegn­um form­lega end­urþjálf­un. Komi aft­ur upp at­vik um of­beit­ingu valds á þess­um bæ verður samn­ingi sagt upp fyr­ir­vara­laust. Þá verður mynda­véla­eft­ir­lit inn­leitt með blóðtök­um á bæn­um þetta árið,“ seg­ir þar.

Þá er tekið fram að önn­ur at­vik sem fram komi í mynd­inni telj­ist annað hvort ekki brot eða séu ekki þess eðlis að hægt sé að segja með vissu að um brot hafi verið að ræða.

Hugsi yfir niður­setn­ingu njósna­búnaðar

Bæði Ísteka og bænd­ur víða um land séu mjög hugsi yfir vinnu­brögðum sem sam­tök­in viðhafi í starf­semi sinni er varðar niður­setn­ingu njósna­búnaðar í næsta ná­grenni við heim­ili bænda.

„Sann­leik­ur­inn er sá að bara á síðasta ári söfnuðu sam­tök­in 50 klst. af efni úr laun­sátri með mynda­vél­um sem komið var fyr­ir án vitn­eskju bænda. Sam­an­lagt tel­ur upp­tekið efni úr laun­sátri mörg hundruð klukku­stund­ir af lífi fólks sem er tekið upp og meðhöndlað í óþökk og án vit­und­ar þeirra.“

Þá sé því haldið fram að of­beldi gagn­vart hryss­um sé samofið fram­leiðslu­ferli fyr­ir­tæk­is­ins, þó að það liggi fyr­ir að Ísteka taki mjög hart á öll­um slík­um til­vik­um sem upp komi, en það hafi fyr­ir­tækið út­skýrt margsinn­is.

Hér má sjá tveggja tíma langt óklippt ör­ygg­is­mynd­band frá blóðtöku sem Ísteka hvet­ur fólk til að horfa á og mynda sér skoðun.

Vilja leiðrétta full­yrðing­ar

Þá er farið yfir nokkr­ar full­yrðing­ar sem fram hafa komið í fjöl­miðlum, sem fyr­ir­tækið vill leiðrétta.

Blóðtak­an geng­ur ekki nærri hryss­un­um 

Haldið er fram að blóðtak­an gangi langt um­fram alþjóðleg viðmið. Hið rétta er að það eru eng­in sam­ræmd viðmið til um blóðtök­ur úr hryss­um. Á Íslandi er stuðst við ís­lenska aðferð sem hef­ur verið notuð með góðum ár­angri í yfir 40 ár. Hún er mjög áþekk þeim aðferðum sem þekkj­ast í þeim lönd­um þar sem þessi starf­semi er eða hef­ur verið og geng­ur síst lengra. Blóðnytja­hryss­ur hér á landi eru al­mennt mjög heil­brigðar bæði inn­an og utan söfn­un­ar­tíma­bils og það eru fol­öld þeirra einnig. Það er eitt og sér aug­ljóst merki um að ekki sé gengið nærri þeim.

Horm­ónið er lítið notað til að auka frjó­semi svína 

Því er haldið fram að eCG/​PMSG sé notað til að auka frjó­semi svína og leiða af sér ónátt­úru­lega stór got sem svo leiði af sér af­leidd dýra­vel­ferðar­vanda­mál. Háskammtameðferðir má nota til að auka fjölda eggja en þeim er venju­lega ekki beitt í svína­eldi. Frjó­semi ræktaðra svína­stofna er nú þegar svo mik­il að auk­in frjó­semi yrði flest­um bænd­um til tjóns.

Hið rétta er að við notk­un í svína­eldi er eCG/​PMSG fyrst og fremst notað til stýr­ing­ar á gang­mál­um. Stýr­ing gang­mála hef­ur í för með sér marg­vís­leg og mjög já­kvæð áhrif, s.s. minnkað vist- og kol­efn­is­spor land­búnaðar­ins, aukna vel­ferð og minni þörf fyr­ir lyfja­gjöf sam­fara jafn­ari ald­urs­dreif­ingu í upp­eld­is­hóp­um. Þessi ein­staka og græna sam­eind hef­ur marga mik­il­væga kosti fram yfir aðrar aðferðir sem einnig er beitt, t.a.m. lang­an verk­un­ar­tíma og breiða virkni. Eng­in önn­ur lyf á markaði hafa sömu virkni.

Foldalda­kjöt vin­sælt á diski lands­manna 

Því er haldið fram að fol­öld séu óþörf auka­af­urð blóðnytja­hryssa. Tekj­ur af blóði og tekj­ur af fol­öld­um eru hvor um sig mik­il­væg­ar stoðir í rekstri búa sem selja þess­ar afurðir. Löng hefð er fyr­ir neyslu fol­alda­kjöts á Íslandi og verið nokkuð jöfn í ár­anna rás. Hér eru á bil­inu fimm til sex þúsund fol­öld­um er að meðaltali slátrað ár­lega. Fyr­ir 15-20 árum keypti Ísteka blóð úr ein­ung­is litl­um hluta þessa meng­is en með ár­un­um hef­ur sá hluti auk­ist með aug­ljósri hag­kvæmni fyr­ir viðkom­andi bú. Það mætti því frek­ar segja að blóðsöfn­un sé auka­af­urð fol­alda­fram­leiðslu frek­ar en öf­ugt. Það er þó þannig að verðmynd­un blóðs hef­ur verið mun ör­ari til hækk­un­ar en fol­alda­kjöts og er það í dag stærri hlut­ur tekna af nytja­hryss­um.

Enn­frem­ur er því haldið fram að starf­sem­ina verði að banna á grund­velli vel­ferðar dýr­anna sem blóði er safnað úr. Aug­ljós af­leiðing þess væri að bænd­ur myndu fæst­ir halda áfram að halda þess­ar skepn­ur sem hluta af sín­um bú­stofni, þeim yrði slátrað og fol­alda­kjöts­fram­leiðsla myndi leggj­ast af að mestu leyti. Erfitt er að heim­færa slíka út­rým­ingu á lífi upp á dýra­vel­ferð.

Ekki bönnuð starf­semi í öðrum lönd­um 

Iðulega er full­yrt að þessi starf­semi viðgang­ist ekki ann­ars staðar en á Íslandi og stund­um er það orðað sem svo að hún sé hvergi ann­ars staðar leyfð. Rétt er að benda á að fram­leiðslan er hvergi bönnuð svo við vit­um til en einnig að al­mennt eru ekki gef­in út leyfi fyr­ir starf­semi sem ekki er sótt um leyfi fyr­ir og ekki áform um að stunda. Ástæða þess að þessi fram­leiðsla er á Íslandi en ekki í ná­granna­lönd­um okk­ar er sú að hvergi ann­ars staðar í álf­unni eru jafn­mörg og stór stóð hald­in á eins hag­kvæm­an hátt og hér. Mik­il menn­ing er fyr­ir stóðhaldi og stóðrekstri hvers kon­ar hér sem ekki þekk­ist í lönd­un­um í kring­um okk­ur. Fara þarf til land­mik­illa og hross­margra landa í öðrum heims­álf­um til að finna sam­bæri­leg­ar aðstæður og hér.

Gagn­rýnt er að reglu­gerð um notk­un á dýr­um í vís­inda­skyni sé ekki að fullu leyti inn­leidd hvað varðar blóðsöfn­un úr hryss­um. Á því liggja fyr­ir eðli­leg­ar stjórn­sýslu­leg­ar skýr­ing­ar og þær eru að leyfi Ísteka skv. fyrra reglu­verki er enn í gildi. Fyrra reglu­verk er raun­ar bæði sér­tæk­ara og ná­kvæm­ara en það sem yf­ir­völd hafa ákveðið að taki við og því er vand­séð hvaða já­kvæðu áhrif á líf blóðgef­andi hryssa reglu­gerð um notk­un dýra í vís­inda­skyni hef­ur. Því skal haldið til haga að Ísteka tel­ur ákvörðun um að grein­in skuli falla und­ir fyrr­greint reglu­verk vera ranga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert