Spunameistarar Samfylkingarinnar eru öðrum duglegri við að spinna hinn pólitíska söguþráð dagsins, en þar að baki býr mjög mismikið efni. Ekki er þó að sjá að það komi niður á fylgi flokksins, benda viðmælendur Dagmála á í umræðu um stjórnmálaviðhorfið.
Stefán Pálsson sagnfræðingur telur að stjórnarliðið hafi gengið býsna langt í að básúna verk sín og vinnusemi, þar séu upptalin frágengin mál við það eitt að þau rati inn í samráðsgátt stjórnvalda. Þá sé hins vegar allt hið þinglega ferli eftir.
Hins vegar skipuleggi Samfylkingin lið sitt vel, þannig að reglulega spretti fram harðsnúin sveit á félagsmiðlum, sem öll virðist hafa fengið sömu hugmynd um að dásama þessa þingræðu eða hin áform ríkisstjórnarinnar.
Gísli Freyr Valdórsson, hlaðvarpsstjóri Þjóðmála, tekur undir þetta og hrósar Samfylkingunni fyrir frumkvæðið. Honum finnst stjórnarliðið þó fullbratt í að hreykja sér af ófrágengnum málum og nefnir fjölgun lögregluþjóna sem dæmi. Enginn efi að það séu skynsamleg áform, en þau taki hins vegar langan tíma í framkvæmd.
Annað dæmi séu frumvarpsdrög um veiðigjöld, sem allir viti að séu ekki tilbúin og hafi beinlínis verið ýtt úr vör nær fyrirvaralaust til þess að drepa á dreif erfiðri umræðu um afsögn fyrsta ráðherra stjórnarinnar. Það hafi verið „krísustjórnun“ frekar en nokkuð annað.
Þetta er meðal þess, sem fram kemur í þætti Dagmála í dag, þar sem þeir félagar ræða stjórnmálaástandið, hvernig ríkisstjórninni hafi gengið á fyrsta ársfjórðungi sínum við völd og hvernig málafylgja hennar hafi koðnað niður í aðdraganda páskafrís. Dagmál eru opin öllum áskrifendum, en þáttinn allan má horfa á með því að smella hér.