Styrktarsjóðurinn Hringfari úthlutaði á miðvikudaginn fimm milljónum króna til barna- og unglingastarfs Skáksambands Íslands.
Styrktarsjóðurinn Hringfari er á forræði hjónanna Ásdísar Rósu Baldursdóttur og Kristjáns Gíslasonar. Hjónin hafa ferðast um allan heim á mótórhjólum og meðal annars gert heimildarmyndir og bækur um ferðalögin. Allur ágóði af sölu á því efni rennur í styrktarsjóðinn.
Til þessa hefur sjóðurinn úthlutað 37 milljónum króna til góðgerðarmála.
Styrkurinn til Skáksambandsins er tileinkaður Helga Árnasyni, fyrrum skólastjóra og skákfrömuði. Í tilkynningu frá Hringfara segir að Helgi hafi á síðustu þrjátíu árum unnið ómetanlegt starf við uppbyggingu skáklistarinnar á Íslandi.
Af þessu tilefni var settur á fót Skáksjóður Helga Árnasonar þar sem Helgi er formaður sjóðsstjórnar. Fjölmargir gestir voru viðstaddir athöfnina þar sem stofnun sjóðsins fór formlega fram. Þeirra á meðal voru Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri ásamt eiginmanni sínum Hrannari Birni Arnarssyni.