Möguleg fjölþjóðleg stuðningsaðgerð til handa Úkraínu var meðal umræðuefna á fundi varnarmálaráðherra um þrjátíu ríkja í gær. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var meðal þeirra sem tóku þátt í fundarhöldunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Fundurinn fór fram í Brussel í dag og í gær. Fundað var í gær undir forystu Breta og Frakka þar sem rætt var um mögulega stuðningsaðgerð fyrir Úkraínu ef til vopnahlés kæmi. Í dag fundaði svo sérstakur ríkjahópur til stuðnings vörnum Úkraínu, þar sem fimmtíu ríki, þar á meðal Ísland, eiga sæti.
„Það er ljóst að Evrópuríki og Kanada hafa tekið sögulegar ákvarðanir um að margfalda framlög til varnarmála og styðja þannig við sameiginlegar varnir og öryggi. Mikill samhugur ríkir um áframhaldandi öflugan stuðning við varnir Úkraínu til þess að tryggja frið á þeirra forsendum. Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum,“ er haft eftir Þorgerði í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Þorgerður Katrín fundaði einnig með Kaju Kallas, utanríkismálastjóra ESB, og Andrius Kubilius, framkvæmdastjóra ESB fyrir varnarmál. Þar var rætt hvernig styrkja mætti samstarf við ESB á sviði öryggis- og varnarmála en öryggismál á norðurslóðum voru einnig í brennidepli.