Sigurður Gísli Björnsson var dæmdur til fangelsisvistar í þrjú ár og til greiðslu rúmlega 1,8 milljarða króna sektar til ríkissjóðs fyrir stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti, þrefaldrar fjárhæðar vanskilanna.
Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skal Sigurður sæta fangelsi í 360 daga.
Þá voru gerðar upptækar af bankareikningum rúmlega 8,7 milljónir króna og rúmlega 31 þúsund dollarar auk áfallinna vaxta og verðbóta frá 22. desember 2017.
Sigurði Gísla og HK-68 ehf. (áður Sæmark-Sjávarafurðir) er gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Þorsteins Einarssonar lögmanns, að fjárhæð rúmlega 14,7 milljónir króna.
Dómur féll í vikunni í Héraðsdómi Reykjaness, sem taldi ekki tilefni til að skilorðsbinda neinn hluta refsingarinnar.
Tveir menn voru dæmdir auk Sigurðar Gísla fyrir aðild að málinu, annar í átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán skilorðsbundna, hinn í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 3,5 milljóna króna sektar til ríkissjóðs. Greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skal hann sæta fangelsi í 80 daga.
Öðrum manninum var gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Ingólfs Vignis Guðmundssonar lögmanns að fjárhæð rúmar 725 þúsund krónur en verjandi hins mannsins afsalaði sér málsvarnarlaunum.
Málið hefur verið kennt við fiskútflutningsfyrirtækið Sæmark-Sjávarafurðir, en Sigurður Gísli er eigandi og framkvæmdastjóri þess.
Var hann sakfelldur fyrir að hafa komist hjá því að greiða tæplega hálfan milljarð króna í skatta eftir að hafa tekið tæplega 1,1 milljarð út úr rekstri félagsins og komið fyrir í aflandsfélögum sem hann átti.
Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa komist hjá því að greiða samtals yfir 100 milljónir í skatta í tengslum við rekstur Sæmarks með því að hafa vanframtalið tekjur félagsins og launagreiðslur starfsmanna upp á samtals 1,1 milljarð og þar með komist hjá því að greiða 81,8 milljónir í tryggingagjald.
Hinir mennirnir tveir voru sakfelldir fyrir að hafa aðstoðað Sigurð Gísla við brot sín, meðal annars með útgáfu rangra og tilhæfulausra sölureikninga.
Um er að ræða gríðarlega umfangsmikið skattsvikamál og í dómnum kemur fram að brot Sigurðar hafi verið stórfelld, skipulögð og framin með vítaverðum hætti sem endurspegli einbeittan brotavilja, bæði að teknu tilliti til fjárhæða og aðferða við brotin.
Þá hafi brotin staðið yfir í langan tíma og þeim hafi verið leynt með skipulögðum hætti.
Brot Sæmarks og Sigurðar Gísla snúa að skilum á efnislega röngum skattframtölum fyrir Sæmark um árabil þar sem rekstrartekjur félagsins voru vanframtaldar vegna rangfærðra afslátta vegna vörusölu til North Coast Seafood Corp. og Atlantic Fresh Ltd.
Þá voru rekstrargjöld offærð vegna viðskipta við Hraðfrystihús Hellis-sands hf., Amih Ltd., Amber Ltd., Glugga og hurðasmiðju SB ehf. og vegna eftirágreiddra afslátta frá flutningsfyrirtækjum.
Þá snúa brot Sæmarks og Sigurðar Gísla að því að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir Sæmark á nokkrum uppgjörstímabilum með því að offramtelja innskatt á grundvelli rangra og tilhæfulausra sölureikninga sem gefnir voru út af Glugga og hurða-smiðju SB ehf. og þar með vanframtelja virðisaukaskatt sem standa bar skil á.
Launagreiðslur starfsmanna Sæmarks voru vanframtaldar um árabil sem myndaði frádráttarbæran kostnað í rekstri félagsins og félagið komst þannig undan greiðslu tryggingagjalds.
Færðir voru tilhæfulausir reikningar í bókhaldi Sæmarks um árabil til North Coast Seafood Corp., Atlantic Fresh Ltd. og Hraðfrystihúss Hellissands hf. Þá voru rangfærslur í bókhaldi félagsins einnig fólgnar í gjaldfærslu tilhæfulausra sölureikninga frá Amih Ltd. og Amber Seafood GmbH. sem og Glugga og hurðasmiðju SB ehf.
Brot Sigurðar Gísla snúa þá að því að hann hafi staðið skil á efnislega röngum skattframtölum um árabil með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram sem skattskyldar tekjur meira en milljarð króna vegna úttekta hans úr rekstri Sæmarks.
Peningaþvættishlutinn snýr að því að Sigurður Gísli hafi látið Sæmark greiða tilhæfulausa gjaldareikninga og hafi rangfært afsláttarreikninga í bókhald félagsins að fjárhæð nærri 1,3 milljarða króna.
Hluta ólögmætu úttekta Sigurðar úr Sæmarki var ráðstafað til aflandsfélaganna Freezing Point Corp. og Fulcas Inc. sem Sigurður Gísli var raunverulegur eigandi að.
Í dóminum er farið yfir gögn sem varða aflandsfélögin tvö. Þar er meðal annars minnst á óundirritaðan samning frá árinu 2014 milli Sigurðar Gísla og North Coast Seafoods Corp. um kaup félagsins á 50% eignarhlut í Sæmarki-Sjávarafurðum ehf. Gerir samningurinn ráð fyrir að leynd eigi að hvíla yfir eignarhaldi.
Tölvupóstur frá Norm Stavis, eiganda North Coast Seafoods Corp., frá 7. desember 2014 segir m.a. í íslenskri þýðingu: „U segir mér að við séum með samning. Til hamingju með nýja hjónabandið þitt!!! Hér er áætlun mín, með fyrirvara um samþykki þitt, ég vil gjarnan millifæra fjármunina [sjóðinn] 10. hvers mánaðar frá og með janúar og ljúki í mars (yfir þriggja mánaða tímabil) svo ekkert líti öðruvísi út ...“
Í tölvupósti Sigurðar Gísla til fyrrgreinds U frá 14. nóvember 2012 með yfirskriftina „afsláttur“ (e. rebate) segir hann meðal annars í íslenskri þýðingu: „Ég er að skoða bækurnar hér á Íslandi og ég held að við gætum lifað með afslætti að fjárhæð um 1.000.000 bandaríkjadali fyrir árið 2012, sem við myndum skipta 50/50 ...“
Í svari U spyr hann meðal annars hvers vegna afslátturinn sé 1.000.000 dalir, þar sem hann hafi næstum því verið 1.200.000 dalir árið áður. Í svari Sigurðar Gísla segir m.a.: „Ok ok ég er bara að reyna að vera varkár með fjárflæðið höfum það 1,2 $ ....600 hvor.“
Því svarar U og spyr hvort „þetta virki svona ... „Við munum halda þessu öllu eftir og síðan mun ég senda þér $598.158,89 hvert sem þú vilt og ég mun sjá um Norm vegna hinna $600.000“.
Í tölvupósti til Sigurðar Gísla frá 11. mars 2015 segir U meðal annars í þýðingu: „ÉG ER MEÐ NOKKUÐ SEM ÞÚ ÁTT !!!!!!! 606230......... Hvert?“ Sigurður Gísli svarar sama dag: „Gerðu það sama og þú gerðir í fyrra [...] láttu mig vita ef þú ert ekki lengur með upplýsingarnar.“
Í kjölfarið spyr U: „Fulcas í Lúxemborg eða Freezing Point í Panama“. Degi síðar, 12. mars 2015, greiddi North Coast Seafoods Corp. 606.215 bandaríkjadali til Freezing Point Corp.
Þá sýna gögn að U sendir tölvupóst til Sigurðar Gísla 29. desember 2015, ásamt afsláttarreikningi, dagsettum 14. desember sama ár, vegna tímabilsins 1. janúar til 12. desember 2015, að fjárhæð 1.318.203 dalir. Í póstinum spyr U: „Gengur þetta ?? Hver verður skiptingin ???“ Ákærði Sigurður Gísli svarar tölvupóstinum samdægurs og svarar að þetta gangi.
Þann 6. janúar 2016 sendir Sigurður Gísli tölvupóst til U þar sem hann segir skiptinguna vera: „562.950 usd Iceland“ og „755.253 usd USA“. U svarar þeim pósti degi síðar og sendir afsláttarreikning í viðhengi og spyr jafnframt hvort hann megi „... byrja að halda eftir í næstu viku ... 100.000 á viku ???“ Einnig spyr hann hvort það væri sami staður og á síðasta ári fyrir ákærða Sigurð Gísla „þegar tími væri kominn“.
Í gögnum liggur fyrir að North Coast Seafoods Corp. lagði fyrrgreinda fjárhæð, 562.950 USD, inn á bankareikning Freezing Point Corp. 25. febrúar 2016.