Tilkynningum til barnaverndar um að barn neyti áfengis eða annarra efna sem líkleg eru til að valda því skaða, fjölgaði um tæp 90 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, miðað við sama tímabil á undan.
Tilkynningum fjölgaði úr 457 í 868 á milli ára en fjölgunin er meiri hjá stúlkum en drengjum.
Heilt yfir fjölgaði tilkynningum um áhættuhegðun barna á milli ára um rúm 16 prósent.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barna- og fjölskyldustofu.
Sé horft á allar tilkynningar til barnaverndar fjölgaði þeim um tæp 12 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, miðað við sama tímabil árið á undan. Tilkynningum fjölgaði í öllum landshlutum en mest í Reykjavík, eða um rúm 13 prósent.
Líkt og fyrri ár voru flestar tilkynningar á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 vegna vanrækslu, eða rúm 42 prósent allra tilkynninga. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var tæp 33 prósent og hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 var rúm 24 prósent.
Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, líkt og áður eða tæp 40 prósent. Næstflestar frá skólum og þar á eftir frá heilbrigðisþjónustu.
Samanlagður fjöldi tilkynninga frá barninu sjálfu, ættingjum barns, nágrönnum og öðru nærumhverfi var 1.808 á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 eða tæp 15 prósent allra tilkynninga.
Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 var 9.333 börn en 8.484 börn árið á undan og 7.830 árið 2022.