Él, slydda, snjór og kuldi munu láta fyrir sér finna á landinu næstu daga.
Þetta segir Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hann segir að él verði víðs vegar um landið í dag, nema í raun fyrir austan þar sem finna má prýðilegt veður í dag og á morgun.
Þá megi búast við slyddu og rigningu fyrir sunnan og á suðvesturhorninu á morgun.
„Á sunnudaginn gjörbreytist veðrið. Þá snýst í norðaustanátt og þá verður snjókoma og slydda fyrir norðan og austan og líka á Ströndum. En á höfuðborgarsvæðinu verður hins vegar bjart og þurrt.“
Segir de Vries að það veðurfar muni svo halda áfram einhverja daga inn í næstu viku.
„Þá erum við með hita nálægt frostmarki fyrir norðan og austan. Hann fer kannski upp í 5 stig, kannski aðeins meira af og til, syðst á landinu.“
„En vorstemmningin er langt í burtu,“ bætir de Vries við að lokum.