Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 25 ára karlmann í þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ítrekað brotið gegn barnungri frænku sinni. Nauðgaði hann stúlkunni meðal annars á heimili hennar, framleiddi af henni klámfengið efni og lét hana pissa í munn sinn er hann lá á bakinu.
Ákæra mannsins er í nokkrum liðum fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni sem framin voru á tímabilinu ágúst 2014 til síðla árs 2017. Með háttsemi sinni nýtti maðurinn sér yfirburði sína sökum aldurs og þess að hann var náfrændi hennar og beitti stúlkuna ólögmætri nauðung.
Maðurinn og stúlkan eru systkinabörn og fyrir liggur að mikill samgangur var á milli heimila þeirra og að maðurinn hafi oft passað brotaþola og bróður hennar innan ákærutímabils. Þá skutlaði hann frænku sinni einnig nokkrum sinnum á fimleikaæfingar.
Maðurinn er ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa í fjölda skipta haft samræði og önnur kynferðismök við hana á heimili hennar, á heimili sínu, í húsi föðurafa þeirra og í ótilgreindri bifreið. Lét hann stúlkuna meðal annars hafa við sig munnmök, hafði munnmök við hana, nuddaði kynfæri hennar innanklæða og fór með fingur inn í leggöng hennar, lét hana snerta kynfæri hans og fróa honum, þuklaði á brjóstum hennar og kynfærum innan- og utanklæða og kyssti hana tungukossum.
Einnig er hann ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni með því að hafa hellt mjólk yfir nakin brjóst stúlkunnar og sleikt hana af og með því að hafa látið stúlkuna pissa í munn hans þar sem hann lá á bakinu.
Þá er hann ákærður fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa framleitt myndefni af stúlkunni sem sýnir barn á kynferðislegan og klámfenginn hátt og með því að hafa á árunum 2021-2022 útbúið og/eða haft í vörslum sínum myndefni sem sýnir börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.
Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum og skoðað á internetinu gríðarlegt magn af myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á börnum og börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.
Þá er hann ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa yrir að hafa haft í vörslum sínum svarta skammbyssu af gerðinni Zoraki og svarta gasbyssu, sem lögregla lagði hald á við húsleit á heimilinu.
Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og færðist undan að tjá sig um sakargiftir að öðru leyti. Áður hafði hann neitað sök við skýrslugjöf hjá lögreglu 23. nóvember 2022, en síðan gengist við því hjá lögreglu 27. apríl 2023 að hafa brotið gegn brotaþola á árunum „2013-2017“ og á því tímabili í allt að fimm skipti veitt stúlkunni munnmök og í mörg skipti, þó færri en tíu, kysst hana tungukossum og káfað á berum brjóstum hennar og píku.
Dró hann svo úr þeim framburði og kvaðst ekki hafa káfað á stúlkunni innanklæða og þannig aldrei snert bert hold hennar.
Af frásögn mannsins hjá lögreglu er ekki ljóst hvort hann hafi gengist við því að hafa brotið gegn brotaþola á heimili sínu, en sagði hana hafa verið mikið inni á því heimili. Ákærði þvertók fyrir að hafa brotið gegn stúlkunni heima hjá afa þeirra og í bifreið á leið á fimleikaæfingar, þrætti fyrir að hafa haft samræði við brotaþola, látið hana handleika og sleikja getnaðarlim hans og/eða runka honum og hann aldrei farið með fingur inn í leggöng hennar.
Fyrir dómi kvaðst ákærða ráma í að hafa gefið skýrslur hjá lögreglu, en ekki muna hvað hann sagði; hann væri með [ótilgreint] og sökum þeirra veikinda hefði hann engar minningar um neitt sem viðkemur sakarefni máls.
Við samanburð á framburði mannsins hjá lögreglu og fyrir dómi er ljóst að frásögn hans er óstöðug og hann margsaga um hluta sakarefnis.
Við samanburð á framburði stúlkunnar hjá lögreglu og fyrir dómi telur dómurinn að einstaklega gott samræmi sé í heildarfrásögn stúlkunnar og nánari lýsingu á einstökum tilvikum og hún án mótsagna. Þá telur dómurinn málsatriði benda til þess að stúlkan sé að lýsa raunverulegum athöfnum og upplifun hennar sem barn. Er það álit dómsins að framburður stúlkunnar, virtur einn og sér, sé í senn varfærinn, einlægur og afar trúverðugur.
Í dóminum er vísað mikið til veikinda mannsins, sem hann veiktist af árið 2017, en um það leyti hætti hann að brjóta gegn stúlkunni. Geðlæknir var dómkvaddur til að framkvæma geðrannsókn á manninum og meta sérstaklega andlegt ástand hans, hvort hann sé haldinn barnagirnd, hvort hann hafi verið sakhæfur á verknaðarstundu og hvort refsing sé líkleg til að skila árangri.
Er skemmst frá því að segja að matsmaður telur manninn mjög veikan af kvíða, depurð og athyglisbresti. Megi þar lítið út af bregða og ljóst að hann sé í mikilli þörf fyrir áframhaldandi geðmeðferð. Hann greinist þó ekki með staðfesta barnagirnd.
Fram kemur að brot mannsins séu mjög alvarleg. Brot hans gegn nákomnu, ókynþroska barni sem átti að vera öruggt um friðhelgi persónu og líkama í návist frænda síns hafi rofið traust á viðkvæmu þroskaskeiði barnsins. Brotin voru framin áður en maðurinn varð átján ára og horfði því til refsilækkunar.
Refsing hans þykir þannig vægast metin fangelsi í þrjú ár. Með hliðsjón af alvarleika brotanna og að gættum ákvæðum almennra hegningarlaga er ekki efni til að skilorðsbinda þá refsingu þrátt fyrir hin alvarlegu, staðreyndu veikindi ákærða. Það sé síðan ákvörðun framkvæmdavaldsins hvort til afplánunar komi.
Var maðurinn þá dæmdur til að greiða stúlkunni 4.000.000 króna miskabætur og þrjá fjórðu alls málskostnaðar, sem var rúmar sjö milljónir króna.