Fjórir slösuðust í alvarlegu umferðarslysi í gærkvöldi þegar bifreið lenti utan vegar á Siglufjarðarvegi, við Grafará, sunnan Hofsós.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi vestra.
Ökumaður bifreiðarinnar og þrír farþegar voru fluttir af vettvangi, m.a. með þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðhlynningar.
„Líðan þeirra er eftir atvikum. Þá var óskað eftir aðkomu áfallateymis RKÍ og bakvakt barnaverndar í Skagafirði var upplýst um málið en talsvert var af ungmennum á vettvangi. Rannsóknarnefnd samgönguslysa er enn á vettvangi og vegurinn því lokaður áfram,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.