Talsvert færri Evrópubúar heimsóttu Bandaríkin í mars í ár heldur en í mars í fyrra. Áhugi Evrópu á Bandaríkjunum virðist fara dvínandi og ferðamálastjóri Íslands segir að það hljóti að hafa áhrif á ferðaþjónustuna hér á landi.
Vesturevrópskir ferðamenn sem dvöldu að minnsta kosti eina nótt í Bandaríkjunum voru 17% færri í mars í ár heldur en á sama tíma í fyrra, samkvæmt bráðabirgðatölum frá bandarísku Alþjóðaviðskiptastofnuninni (International Trade Administration). Reyndar fækkar Íslendingum mest, um 35%, en smáþjóð sem Ísland eru ólíklega aðalmarkhópur bandaríska ferðaiðnaðarins.
Að hluta orsakast þessi fækkun af því að páskarnir hafi lent á mars í fyrra.
En samt eru blikur á lofti um að Donald Trump Bandaríkjaforseti spili lykilþátt í þessum breytingnum. Afbókunum hefur nefnilega einnig farið fjölgandi í Bandaríkjunum þetta árið.
Alls fækkaði ferðamönnum til Bandaríkjanna í mars um 12% milli ára en slík brekka sást síðast árið 2021 vegna heimsfaraldurs.
„Miðað við þessar tölur er bara hrun í sölu til Bandaríkjanna miðað við mars í fyrra,“ segir Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is, en hann bendir jafnframt á að varhugavert sé að bera mánuðina saman með tilliti til þess að páskar hafi hitt á mars í fyrra.
Spurður út í hvað valdi þessu svarar hann: „Það er erfitt að segja nákvæmlega hvað þetta er. Við sjáum bara þessar tölur.“
Financial Times greindu frá þessum tölum í dag og segja þessa fækkun ógna bandaríska ferðamannaiðnaðinum, sem nemi þar um 2,5% af vergri landsframleiðslu.
FT segir að sum flugfélög hafi lýst áhyggjum af minnkandi eftirspurn á ferðum yfir Atlantshafið. Þau telji slæma umræðu Bandaríkin eiga þátt í þeirri þróun.
„Þetta er svolítið sláandi. Og þetta er áhugavert að því leytinu til að það skipti fólk máli hvernig ríki hegða sér,“ segir Arnar
„Fólk virðist vera ósátt við framferði Bandaríkjaforseta,“ bætir hann við og bendir á að stjórnvöld í nokkrum Evrópulöndum hafi gefið út ferðaviðvaranir til trans og kynsegin fólks.
Fjöldi ferðamanna hefur verið tekinn í hald á landamærum Bandaríkjanna síðasta mánuðinn þar sem stjórnvöld hafa aukið landamæraeftirlit.
Guardian greindi frá því á dögunum að fólk frá hinum ýmsu Evrópulöndum, og jafnvel Bandaríkjamenn, hafi verið handtekið á landamærunum þrátt fyrir að hafa ekki gert nokkuð af sér.
„Ef það er eitthvað sem ferðamenn forðast þá er það pólitísk spenna,“ segir Arnar Már enn fremur.
Financial Times hefur eftir Paul English, eins stofnenda ferðavefsins Kayak, að fækkunin sé til marks um það að Trump hafi „eyðilagt orðspor Bandaríkjanna“ á aðeins tveimur mánuðum.
Naren Shaam, forstjóri ferðavefsins Omio, segir einnig við miðilinn að afbókanir til Bandaríkjanna á fyrsta ársfjórðungi hafi aukist um 16% milli ára. Þar af voru Bretar, Þjóðverjar og Frakkar með hærri en 40% afbókunarhlutfall.
Hótelkeðjan Accor segir einnig að bókanir fyrir sumarið frá evrópskum gestum hafi dregist saman um 25%. Auk þess hefur ferðamönnum frá Kanada til Bandaríkjanna fækkað.
Í kjölfar þess að Trump tilkynnti um tolla í síðustu viku breytti Bandaríska rannsóknarsetur ferðamennskunar um ferðamannaspá sinnu. Áður var spáð 9% aukningu, en nú er spáð 9% fækkun.
Auk þess eru áhyggjur uppi hér á landi um að Bandarískum ferðamönnum til Íslands fækki, m.a. vegna þess að Bandaríkjadalinn hefur fallið í virði, en samkvæmt Samtökum ferðaþjónustunnar voru bandarískir ferðamenn 27% af öllum erlendum ferðamönnum á Íslandi 2024 og stóðu undir 38% af verðmætunum í geiranum.
Farþegar á Keflavíkurflugvelli í febrúar og mars voru örlítið færri í janúar og mars í ár miðað við síðasta ár, samkvæmt gögnum frá Isavia. Það á einnig við um skiptifarþegar, sem nema um þriðjung allra farþega á vellinum. Farþegar voru þó fleiri í janúar í ár heldur en í fyrra.
„Þetta eru ekki miklar sveiflur,“ segir Arnar ferðamálastjóri sem hefur svo eftir forstjóra Icelandair að vel gangi þrátt fyrir þessa óvissu.
„En eins og leiðarkerfi Icelandair er byggt upp þá getur maður ekki annað gert en hugsað: Ef áhugi á Bandaríkjunum minnkar, þá hlýtur það að hafa einhver áhrif.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.