Kristrún Frostadóttir var endurkjörin formaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í Grafarvogi í gær og hlaut hún 296 atkvæði af 300 eða 98,67%. Aðrir gáfu ekki kost á sér.
Guðmundur Árni Stefánsson var endurkjörinn og sjálfkjörinn varaformaður og Jón Grétar Þórsson var sjálfkjörinn gjaldkeri á ný, en Guðný Birna Guðmundsdóttir bar sigurorð af Gylfa Þór Gíslasyni í kosningu um ritaraembættið.
Katrín Júlíusdóttir var kjörin formaður hinnar valdamiklu framkvæmdastjórnar flokksins.
„Ég er auðvitað ánægð með að finna fyrir þessum mikla stuðningi,“ sagði Kristrún Frostadóttir þegar Morgunblaðið náði tali af henni skömmu eftir kjörið í gær
„Það er mikil samstaða í Samfylkingunni. Ég finn það bara þegar ég labba hingað inn. Auðvitað eru skiptar skoðanir, það er eðlilegt og eftir því sem flokkar stækka, því meira pláss er fyrir ólíkar skoðanir.
En það er samstaða og það er skilningur á mikilvægi þess að vera í stjórn til þess að koma hlutum til framkvæmda. Í því felst að við þurfum að gera málamiðlanir – við erum ekki ein í ríkisstjórn – og flestir hafa skilning á því. En hér er líka metnaðarfullt fólk, sem vonast til þess að við verðum lengur í ríkisstjórn en eitt kjörtímabil og vill hafa mótandi áhrif, ekki aðeins á þessu kjörtímabili heldur inn í framtíðina.“
Rúmum 100 dögum eftir að þú myndar ríkisstjórn blasir ný heimsmynd við. Hjálpar þessi fundur þér að ráða úr því?
„Það sem hefur hjálpað mér og hefur hjálpað flokknum er að fyrir 2-3 árum fórum við í þá vegferð að fara aftur í kjarna jafnaðarstefnunnar. Velja færri en stærri mál og vera með akkeri. Það gerir það líka að verkum að maður verður einbeittari og þá er auðveldara að standa af sér umrót. Það er mín reynsla almennt í pólitík, svo maður dragist ekki endalaust inn í dægurumræðuna, en það á líka við á svona ólgutímum í alþjóðamálum. Við eigum grunngildi og eigum því auðveldara með að bregðast við breyttum aðstæðum.“
Þú hefur verið dugleg við að fara út til samtals við fólk og á þessum fundi sést að það er fólk að koma til liðs við flokkinn. Geturðu nýtt það?
„Við erum auðvitað alltaf að horfa til þess hvernig við getum stækkað flokkinn. Það skiptir miklu máli að Samfylkingin sé stór á sem flestum stöðum. Nú eru sveitarstjórnarkosningar eftir um ár og Samfylkingin þarf að vera stór í þeim.“
En þurfið þið þá ekki að bjóða fram víðar en raunin var síðast?
„Jú, ég vil að Samfylkingin bjóði fram sem víðast og við erum þegar farin að leggja drög að því, hvetjum til stofnunar flokksfélaga, enda finnum við að flokksstarfið og áhugi á því hefur aukist víða um land. Sem er ekkert skrýtið; þegar forystan sinnir grasrótinni þá tekur hún við sér.“
Þannig að þú ferð í kosningabaráttu?
„Ég er auðvitað í annasömu starfi. Þess vegna er viðbúið að Katrín Júlíusdóttir formaður framkvæmdastjórnar og Guðmundur Árni varaformaður, sem líka er sveitarstjórnarmaður, stígi þar inn af nokkrum krafti. Og Samfylkingin mun koma inn af miklum krafti.“
Guðmundur Árni tók undir þetta og sagði að myndin væri þegar tekin að skýrast um framboð víðar á landinu. Þar á meðal myndi flokkurinn bjóða fram í eigin nafni í Garðabæ og víðar.
„Ekki bara af því að við hvetjum til þess, það er fólk að hafa samband við okkur, vill rífa upp starfið og bjóða fram undir merkjum Samfylkingar.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.