Verð á hráolíu hefur ekki verið lægra frá árinu 2021 í Covid-faraldrinum. Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrum orkumálastjóri, segir að sú þróun gæti haft áhrif á stríðsvél Rússa í Úkraínu sem reiði sig tekjur af olíuútflutningi til Asíu.
Verð á hráolíu hefur lækkað hratt eða um 22% frá því Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um tolla á þjóðir heims. Þrátt fyrir að hann hafi dregið í land með hluta tollanna hafa spákaupmenn haldið að sér höndum og verðhækkanir verið litlar sem engar undanfarna daga.
Halla Hrund segir það vekja athygli að engir tollar hafi verið lagðir á Rússa í aðgerðum Bandaríkjamanna. Hugsanlega kunni það að tengjast mögulegri samningslausn á Úkraínustríðinu en slíkt séu getgátur einar á þessari stundu. Hvað sem því líður sé ljóst að staða Rússlands í alþjóðahagkerfinu ráðist af því hvernig olíuverð mun þróast á næstunni.
„Orkusala Rússlands er heilt yfir gríðarlega mikilvæg fyrir hagkerfi þeirra, telur yfir 35% (nær 35-50%) af tekjum ríkisins. Því er mjög mikilvægt fyrir Rússland að þær tekjur haldist. Nú eru hins vegar blikur á lofti og því meira sem verð á olíu lækkar og því meiri áhrif sem það hefur á stöðu Rússa því erfiðara verður fyrir þá að standa í kostnaðarsömum fjárútlátum til langs tíma. Það gæti haft áhrif á stöðuna í Úkraínu þó að óvissan á mörkuðum sé vissulega mikil,“ segir Halla Hrund.
Rússar voru stórtækir í innflutningi á olíu til Evrópu fyrir Úkraínustríðið og þrátt fyrir að Evrópa hafi leitað í aðra valkosti hvað varðar innflutning á olíu sér ekki högg á vatni þegar kemur að gasinnflutningi til Evrópu.
„Áhugavert er að sala á gasi hefur haldist frá Rússlandi til Evrópu. Raunar var metár í sölu frá Rússlandi til Evrópusambandsins fyrra. Það helgast af því að ekki hafa verið settar viðskiptaþvinganir á náttúrulegt gas (LNG) til Evrópu. Margir hafa talað fyrir banni á gaskaupum í samhengi við fjármögnun stríðsreksturs Rússa í Úkraínu. En pólitíkin í Evrópu hefur litið fram hjá því og frekar haft áhyggjur af áhrifum á verð á gasi sem nauðsynlegt er fyrir stóran hluta húshitunar í Evrópu og heimili því háð hagstæðu verði á gasi,“ segir Halla Hrund.