Lækkað verð fleygur í stríðsaðgerðir Rússa

Halla Hrund segir það vekja athygli að engir tollar hafi …
Halla Hrund segir það vekja athygli að engir tollar hafi verið lagðir á Rússa í aðgerðum Bandaríkjamanna. Samsett mynd

Verð á hrá­ol­íu hef­ur ekki verið lægra frá ár­inu 2021 í Covid-far­aldr­in­um. Halla Hrund Loga­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks og fyrr­um orku­mála­stjóri, seg­ir að sú þróun gæti haft áhrif á stríðsvél Rússa í Úkraínu sem reiði sig tekj­ur af ol­íu­út­flutn­ingi til Asíu.

Verð á hrá­ol­íu hef­ur lækkað hratt eða um 22% frá því Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti til­kynnti um tolla á þjóðir heims. Þrátt fyr­ir að hann hafi dregið í land með hluta toll­anna hafa spá­kaup­menn haldið að sér hönd­um og verðhækk­an­ir verið litl­ar sem eng­ar und­an­farna daga.

Eng­ir toll­ar á Rússa 

Halla Hrund seg­ir það vekja at­hygli að eng­ir toll­ar hafi verið lagðir á Rússa í aðgerðum Banda­ríkja­manna. Hugs­an­lega kunni það að tengj­ast mögu­legri samn­ings­lausn á Úkraínu­stríðinu en slíkt séu get­gát­ur ein­ar á þess­ari stundu. Hvað sem því líður sé ljóst að staða Rúss­lands í alþjóðahag­kerf­inu ráðist af því hvernig olíu­verð mun þró­ast á næst­unni.

„Orku­sala Rúss­lands er heilt yfir gríðarlega mik­il­væg fyr­ir hag­kerfi þeirra, tel­ur yfir 35% (nær 35-50%) af tekj­um rík­is­ins. Því er mjög mik­il­vægt fyr­ir Rúss­land að þær tekj­ur hald­ist. Nú eru hins veg­ar blik­ur á lofti og því meira sem verð á olíu lækk­ar og því meiri áhrif sem það hef­ur á stöðu Rússa því erfiðara verður fyr­ir þá að standa í kostnaðar­söm­um fjár­út­lát­um til langs tíma. Það gæti haft áhrif á stöðuna í Úkraínu þó að óviss­an á mörkuðum sé vissu­lega mik­il,“ seg­ir Halla Hrund.

Metár í gasút­flutn­ingi til Evr­ópu 

Rúss­ar voru stór­tæk­ir í inn­flutn­ingi á olíu til Evr­ópu fyr­ir Úkraínu­stríðið og þrátt fyr­ir að Evr­ópa hafi leitað í aðra val­kosti hvað varðar inn­flutn­ing á olíu sér ekki högg á vatni þegar kem­ur að gasinn­flutn­ingi til Evr­ópu.

„Áhuga­vert er að sala á gasi hef­ur hald­ist frá Rússlandi til Evr­ópu. Raun­ar var metár í sölu frá Rússlandi til Evr­ópu­sam­bands­ins fyrra. Það helg­ast af því að ekki hafa verið sett­ar viðskiptaþving­an­ir á nátt­úru­legt gas (LNG) til Evr­ópu. Marg­ir hafa talað fyr­ir banni á gas­kaup­um í sam­hengi við fjár­mögn­un stríðsrekst­urs Rússa í Úkraínu. En póli­tík­in í Evr­ópu hef­ur litið fram hjá því og frek­ar haft áhyggj­ur af áhrif­um á verð á gasi sem nauðsyn­legt er fyr­ir stór­an hluta hús­hit­un­ar í Evr­ópu og heim­ili því háð hag­stæðu verði á gasi,“ seg­ir Halla Hrund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert