Fyrstu 10 dagar aprílmánaðar eru þeir langhlýjustu síðan mælingar hófust hér á landi. Trausti Jónsson veðurfræðingur vekur athygli á þessu á Moggablogginu.
Skráðar veðurathuganir ná allt aftur til ársins 1845.
Fyrstu tíu dagar aprílmánaðar hafa verið sérlega hlýir, segir Trausti. Meðalhiti í Reykjavík er +7,0 stig, 4,3 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og 4,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er langhlýjasta aprílbyrjun aldarinnar. Það er einu stigi hlýrra en 2014, en þá var einnig mjög hlýtt. Kaldasta aprílbyrjunin á öldinni var árið 2022, meðalhiti þá var -0,9 stig.
Á langa listanum er þetta einnig hlýjasta aprílbyrjunin og munar tæpu hálfu stigi á meðalhita nú og sömu daga 1926. Kaldast var 1886, en þá var meðalhiti daganna tíu -4,6 stig.
Á Akureyri eru vikin enn meiri nú, meðalhiti er +6,8 stig og er það 5,7 stigum ofan meðallaga 1991 til 2020 og 6,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Þetta er hlýjasta aprílbyrjun aldarinnar á öllum spásvæðum. Á einstökum stöðvum er vikið mest á fjöllum austanlands. Á Gagnheiði hefur hiti verið 8,2 stig ofan meðallags.
Úrkoma hefur mælst 12,2 millimetrar í Reykjavík, um helmingur meðalúrkomu sömu daga. Á Akureyri hafa mælst 17,4 mm, um 50 prósentum umfram meðallag, og á Dalatanga hafa mælst 6,8 mm, aðeins fimmtungur meðallags.
„Næstu daga er spáð öllu lægri hita á landinu og næsta óvist að mánuðinum haldist á þessu efsta sæti hlýinda,“ segir Trausti Jónsson að lokum. sisi@mbl.is
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.