Tveir karlmenn voru handteknir í Breiðholti í dag eftir tilkynnt hafi verið um að þeir væru að sparka í hurð. Við öryggisleit á mönnunum kom í ljós að annar þeirra væri með steikarhníf á sér og hinn með kjötöxi. Þá fundust einnig fíkniefni á öðrum þeirra.
Þeir eiga von á vænlegri sekt fyrir vopnaburðinn, að því er kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 5 til klukkan 17 í dag.
Einn karlmaður var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur eftir að hafa verið með ofbeldistilburði. Fundust einnig meint fíkniefni á manninum og má hann eiga von á kæru vegna vörslu þeirra.
Þá var tilkynnt um bílveltu í íbúðagötu í miðborginni. Segir í dagbókinni að ökumaðurinn hafi verið óslasaður eftir veltuna en að grunur hafi vaknað um að hann hefði verið undir áhrifum fíkniefna. Var hann því handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna rannsóknarhagsmuna.
Annar ökumaður var handtekinn í dag en eftir að hafa verið gefið merki um að stöðva akstur við hefðbundið eftirlit ók ökumaðurinn yfir gangstéttarkant og inn í runna þar sem hann stöðvaði bifreiðina. Var hann sterklega grunaður um akstur undir áhrifum áfengis en einnig kom í ljós að hann hafði aldrei öðlast ökuréttindi.
Þá var tilkynnt um lausa hunda sem voru að angra vegfarendur í Laugardalnum. Áréttaði lögregla við eiganda hundanna að taumskylda væri í Reykjavík og að honum bæri að virða það.