Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands eru ekki sáttir með ákvörðun menntamálaráðuneytisins um að þeim verði boðið að ljúka námi sínu í Tækniskólanum. Allir nemendur skólans voru mættir á neyðarfund nemendafélagsins sem haldinn var í Kvikmyndaskólanum fyrr í dag.
Þetta segir Katrín Eir Ásgeirsdóttir, formaður Kínema, nemendafélags Kvikmyndaskólans, í samtali við mbl.is, en nemendafélag skólans hefur gefið frá sér yfirlýsingu þar sem kallað er eftir tafarlausum aðgerðum vegna óvissu um framtíð kvikmyndanáms.
Er blaðamaður náði tali af Katrínu var hún ásamt samnemendum sínum í Kvikmyndaskólanum þar sem unnið er nú að því að rita opið bréf til Guðmundar Inga Kristinssonar, barna- og menntamálaráðherra.
„Við kölluðum á svona neyðarfund í dag þar sem að við ætlum að láta okkar rödd heyrast af því að við erum ekki sátt með þetta,“ segir Katrín.
„Við ætlum að gera allt til þess að reyna að halda okkar striki í Kvikmyndaskólanum af því við viljum vera hér.“
Í yfirlýsingu nemendafélagsins kemur fram að nemendur skori á ráðuneytið að bregðast tafarlaust við og tryggja áframhaldandi menntun í kvikmyndaiðnaði. Það sé nauðsynlegt að leysa úr þeirri stöðu sem upp sé komin og standa vörð um vandað nám í kvikmyndagerð.
Segir Katrín að nemendur vilji nú koma að sínu orði og sínum skoðunum hvað málið varðar.
Eins og greint hefur verið frá hefur kennslu verið haldið gangandi í skólanum þrátt fyrir að kennararnir hafi ekki fengið greidd laun og segir Katrín mikla samstöðu hafa myndast innan veggja skólans.
„Skólinn okkar er bara ein stór fjölskylda. Kennarar að kenna okkur launalaust segir svolítið mikið myndi ég segja.“
Rafmennt, sem sinnir fræðslu fyrir raf- og tækniiðnaðinn á Íslandi, hefur lýst yfir vilja til að ganga til viðræðna við mennta- og barnamálaráðuneytið um að taka við þeirri kennslu sem Kvikmyndaskólinn hefur haft á sinni könnu og segir Katrín alla nemendur skólans vera sammála um að fá þá úrlausn í gegn.
„Við héldum að það væri komið í gegn og væri lausnin á þessu en svo einhvern veginn varð það stoppað.“
Ákall um tafarlausar aðgerðir vegna óvissu um framtíð kvikmyndanáms
Nemendafélag Kvikmyndaskóla Íslands lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framtíð náms í kvikmyndagerð á Íslandi eftir að rekstrarfélag skólans varð gjaldþrota í mars síðastliðnum. Samráðsleysi menntamálaráðuneytisins undanfarnar vikur hefur verið algjört og ljóst að viðbrögð stjórnvalda ógna menntun og framtíð kvikmyndagerðar í landinu.
Við skorum á ráðuneytið að bregðast tafarlaust við og tryggja áframhaldandi menntun í kvikmyndaiðnaði. Það er nauðsynlegt að leysa úr þeirri stöðu sem upp er komin og standa vörð um vandað nám í kvikmyndagerð.
Skýr vilji hefur verið hjá ráðuneyti háskólamála að færa námið á háskólastig í samvinnu við starfandi háskóla eins og öll rök standa til. Nemendur skólans hafa velflestir þegar lokið prófum við framhalds- og háskóla og jafnvel fleiri en einni gráðu og því ljóst að flutningur í skyndi án alls samráðs yfir í óskyldan framhaldsskóla, þar sem engin hefð er fyrir kennslu í kvikmyndalistinni, leysir engan vanda. Harmar félagið að nýr menntamálaráðherra tjái sig opinberlega um slík mál án þess að kynna sér forsöguna og staðreyndir.
Áratuga grasrótarstarf má ekki dæma af léttúð sem vanda einhvers einkaskóla. Halda þarf áfram vinnu í háskólaráðuneytinu, þar sem skilningur ríkir á þessu mikilvæga starfi og ryðja þarf öllum hindrunum fyrir þeirri lausn úr vegi án frekari tafa. Fjöregg og framtíð nemenda og íslenskrar kvikmyndagerðar er undir.
Nemendafélag Kvikmyndaskóla Íslands.