Nýjum Bókaklúbbi Spursmála hefur verið ýtt úr vör. Á þeim vettvangi verður ný bók kynnt til leiks í hverjum mánuði og fjallað um efni hennar og innihald með greinaskrifum og viðtölum og þá verður efnt til viðburða þar sem rætt er við höfunda, þýðendur og sérfræðinga sem þekkingu hafa á efninu hverju sinni.
Þátttaka í klúbbnum er fólki að kostnaðarlausu en henni fylgja fríðindi á borð við afslætti á bókum sem fjallað er um, auk forgangs á fyrrnefnda viðburði.
„Við teljum tækifæri til þess að hvetja fólk til þess að lesa meira og kynna sér mikilvæg samfélagsmálefni á yfirvegaðan og yfirgripsmikinn hátt,“ segir Stefán Einar Stefánsson, umsjónarmaður Spursmála og klúbbsins.
Fyrsta bókin sem tekin er til umfjöllunar er ævisaga Geirs H. Haarde sem vakti verðskuldaða athygli þegar hún kom út á liðnu hausti. Í byrjun maí mun Geir setjast niður með Stefáni Einari og ræða við hann um tiltekna kafla bókarinnar. Fer samtalið fram á Vinnustofu Kjarvals.
Samstarfsaðilar Spursmála um klúbbinn eru öflug fyrirtæki sem lagt hafa rækt við íslenska tungu og bókmenningu. Það eru útgerðarfélagið Brim, Penninn/Eymundsson, lækningavörufyrirtækið Kerecis og Samsung.