Rafmennt, sem sinnir fræðslu fyrir raf- og tækniiðnaðinn á Íslandi, lýsir yfir vilja til að ganga til viðræðna við mennta- og barnamálaráðuneytið um að taka við þeirri kennslu sem Kvikmyndaskólinn hefur haft á sinni könnu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Rafiðnasambandi Íslands en í síðasta mánuði var tilkynnt að rekstrarfélag Kvikmyndaskólans Íslands væri á leið í gjaldþrot.
„Nemendur í kvikmyndaiðnaði eru framtíðarfélagsfólk í Félagi tæknifólks, aðildarfélagi Rafiðnaðarsambands Íslands – annars tveggja eigenda Rafmenntar. Því liggur beint við að Rafmennt taki við þessari fræðslu,“ segir í yfirlýsingunni, sem Jakob Tryggvason, formaður RSÍ, og Þór Pálsson, framkvæmdastjóri og skólameistari Rafmenntar, skrifa undir.
Þar segir enn fremur að þrátt fyrir yfirlýstan vilja og stuðning annars staðar úr stjórnsýslunni hafi ráðuneytið ekki viljað grípa tækifærið og ræða við stjórn Rafmenntar. Það veki bæði undrun og áhyggjur og skorar stjórnin á ráðuneytið að bregðast við án tafar og hefja samtal.
„Leysa þarf tafarlaust úr þeirri stöðu sem upp er komin og tryggja að framtíð kvikmyndagerðar á Íslandi verði ekki teflt í tvísýnu,“ segir í yfirlýsingunni.