Árlegir páskatónleikar hefjast klukkan 15 í Boðunarkirkjunni á Álfaskeiði 115 í Hafnarfirði á morgun, pálmasunnudag, og er aðgangur ókeypis sem fyrr. „Þetta eru upprisuhátíðartónleikar í tilefni páskanna og Boðunarkirkjan vill hafa frítt inn til að koma til móts við þá sem minna mega sín og hafa hreinlega ekki efni á að borga aðgangseyri,“ segir Elín Ósk Óskarsdóttir, sópransöngkona og listrænn stjórnandi í kirkjunni. Leggur hún samt áherslu á að allir séu velkomnir.
Elín Ósk skipulagði fyrstu páskatónleikana árið 2023. Þá, rétt eins og í fyrra og nú, fékk hún til liðs við sig þekkta og góða söngvara. „Ég er alltaf með gott fólk með mér,“ segir hún, en nú eru það söngkonurnar Elsa Waage kontraalt, Maríanna Másdóttir sópran, Björg Birgisdóttir sópran og Anna Sigríður Helgadóttir alt. Dan Cassidy fiðluleikari er meðleikari ásamt hljómsveit kirkjunnar undir stjórn Kjartans Ólafssonar, eiginmanns Elínar Óskar. „Uppbygging tónleikanna hefur alltaf verið með svipuðu sniði, og við bregðum ekki út af vananum,“ heldur hún áfram.
„Magnea Sturludóttir verður með fræðslu á milli laga um tilurð páskanna,“ upplýsir Elín Ósk. „Við byrjum á því að syngja lög sem tengjast skírdeginum, förum síðan yfir í föstudaginn langa og loks í upprisuna.“
Elín Ósk segir mikilvægt að koma til móts við þá sem minna mega sín og Boðunarkirkjan geri það meðal annars með því að veita áhugasömu fólki þá ánægju að koma á tónleika án þess að þurfa að hafa áhyggjur af pyngjunni. „Forseti Íslands hvatti almenning til að gerast riddarar kærleikans og við erum það.“ Fyrir rúmum tveimur árum hafi hún viljað koma á fót sérstöku tónlistarhaldi með aðkomu listafólks í kirkjunni og nýbreytninni hafi verið vel tekið. „Við höfum átt sérlega notalega stund í kirkjunni á þessum árlegu tónleikum og léttar veitingar í boði kirkjunnar að þeim loknum hafa aukið á ánægjuna. Við erum líka með árlega aðventutónleika í þessum dúr og þeir hafa mælst vel fyrir. Mér vitanlega er þetta hvergi gert nema hjá okkur.“
Í lok febrúar sl. hélt Elín Ósk svokallaða endurkomutónleika undir yfirskriftinni „Guð er kærleikur“ eftir að hafa verið frá stóra sviðinu í áratug vegna veikinda. Hún þakkaði Boðunarkirkjunni og kirkjusöfnuðinum fyrir bata á andlega sviðinu og er þakklát fyrir móttökurnar sem hún fékk fyrir tæpum tveimur mánuðum. „Tónleikarnir voru meiri háttar og allt gekk upp,“ segir hún. „Áheyrendur tóku mér svo vel að ég átti ekki til orð.“ Hún sé endurnærð og tónleikarnir hafi veitt sér byr undir báða vængi. „Mig langar til þess að halda áfram á þessari braut.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.