Fjármálaráð segir það rýra trúverðugleika fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að hún sé lögð fram samhliða fjármálaáætlun. Henni sé ætlað að standa sjálfstætt og leggja grunn að öðrum þáttum stefnumörkunar í opinberum fjármálum, það er fjármálaáætlun og fjárlögum.
„Til þess að stefnan geti þjónað því hlutverki þarf hún að vera lögð fram og afgreidd af hálfu þingsins áður en fjármálaáætlun er lögð fram,“ segir í áliti fjármálaráðs.
Fjármálaráð gagnrýnir jafnframt að bætt afkomu- og skuldaviðmið séu öðru fremur háð forsendu um væntan hagvöxt á næstu árum, en um þróun hans ríkir óvenjumikil óvissa nú um mundir.
Stefnan væri trúverðugri miðaði hún að því að bæta afkomu- og skuldaviðmið með minni aukningu eða samdrætti ríkisútgjalda, í stað þess að treysta á hagvöxt sem ríkisstjórnin hefur lítil bein áhrif á til skamms tíma.
Þá er gagnrýnt að áform um lækkun skulda séu afturhlaðin, svo mjög að lækkun komi að mestu í hlut næstu ríkisstjórnar ef ná eigi skuldamarkmiði árið 2037. Að óbreyttu náist skuldamarkmið ekki fyrr en um árið 2050.
Aukinheldur er efast um að hin nýja stöðugleikaregla þjóni lækkun skulda.
„Ef svigrúm til útgjaldaaukningar er aukið í djúpum niðursveiflum, en tveggja prósenta raunaukning útgjalda er fullnýtt utan þeirra, verður erfitt að greiða niður skuldir til að takast á við síðari efnahagsáföll sem munu óhjákvæmilega eiga sér stað,“ segir meðal annars í álitsgerðinni.
Ráðið hefur enn fremur áhyggjur af fyrirkomulagi skuldaþróunaráætlunar, sem tekur við af brottfelldum tölulegum skilyrðum skuldalækkunarreglu.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.