Rúmlega tuttugu skjálftar hafa mælst í dag í Ljósufjallakerfinu, nánar tiltekið við Grjótárvatn.
Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir hrinur af þessum toga hafa komið í hviðum síðan eldvirkni hófst á Reykjanesskaga, þó að ekki sé endilega nein bein tenging þar á milli.
„Þetta eru mjög djúpir skjálftar, bara svona hreyfingar í skorpunni. Þetta er ekkert sem bendir til kviku eða neitt þannig,“ segir Minney í samtali við mbl.is.
„Við erum að fylgjast með þessum skjálftum og erum búin að vera að gera það síðustu þrjú ár, en þetta eru bara djúpir skjálftar og við erum búin að vera að fá svona hrinur.“
Grjótárvatn er innan eldstöðvakerfis Ljósufjalla á Snæfellsnesi.
Í janúar jókst skjálftavirkni á svæðinu verulega og óróapúls mældist í kerfinu. Greiningar á gervitunglagögnum frá 2019 til sumarsins 2024 sýna ekki mælanlega aflögun á yfirborði, en í ljósi aukinnar virkni virkni og vísbendinga um kvikuinnskot á talsverðu dýpi hækkaði lögreglan á Vesturlandi vöktunarstigið á svæðinu.