Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út á mesta forgangi auk sjóbjörgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar á þriðja tímanum í dag vegna leka sem kom upp um borð í fiskibáti sem staddur var vestur af Akranesi.
Tveir voru um borð í bátnum. Þetta segir í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands.
Segir þar enn fremur að stjórnstöð gæslunnar hafi ræst út viðbragðsaðila en auk þess voru skip í grenndinni beðin um að halda á vettvang.
Þá kemur fram að björgunarskip Landsbjargar á Akranesi hafi komið fljótt á staðinn og gekk vel að koma í veg fyrir lekann.
Taug var komið fyrir á milli fiskiskipsins og björgunarskipsins sem dregur nú bátinn til hafnar og var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar afturkölluð.