„Við sögðum á síðasta landsfundi, fyrir tveimur og hálfu ári, að sá fundur myndi marka tímamót í sögu flokks og þjóðar. Og hingað erum við komin. Við boðuðum breytingar. Og nú leiðum við breytingar. Fyrst í flokknum og svo í ríkisstjórn.“
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, í stefnuræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar í dag.
Kristrún sagði að Samfylkingin hafi verið með plön sem nú sé verið að framkvæma en þau hafi verið mótuð í umfangsmiklu samtali við almenning. Hún sagði Samfylkinguna aftur vera komna á réttan stað, þétt með þjóðinni og loks í forystu við stjórn landsmála eftir ellefu löng ár í stjórnarandstöðu.
„Við vitum að verkefninu er engan veginn lokið. Vinnan er rétt að hefjast og við munum halda áfram að móta flokkinn okkar, þannig að við náum sem mestum árangri - byggt á hugsjónum okkar og gildum um frelsi, jafnrétti og samstöðu. Því við fórum ekki í pólitík til að fagna stundarsigri í kosningum heldur til að vinna langvarandi sigra í landinu fyrir fólkið, sem munar um í daglegu lífi,“ sagði Kristrún.
Þá sagði hún að Samfylkingin starfi að auðmýkt og virðingu fyrir umbjóðendum flokksins.
„Við berum rauða rós og fána Íslands til áminningar um það hverjum við þjónum – ekki sjálfum okkur heldur Íslandi og öllum þeim sem hér búa, vinnandi fólki, hvar sem það skipar sér í flokk og leik og starfi. Við erum ekki klúbbur um einkahagsmuni eða einkaáhugamál flokksfélaga. Við erum og verðum alltaf að vera Samfylking í þjónustu þjóðar.“
Þá beri flokksmenn virðingu fyrir ólíkum gildum og skoðunum.
„Við berum virðingu fyrir ólíkum skoðunum – og, já, ólíkum gildum. Við setjum okkur ekki á háan hest. En berum höfuðið hátt – því að það megum við svo sannarlega gera, stolt og hnarreist. Flokkurinn okkar er 25 ára í vor. En sagan nær óslitið aftur til ársins 1916. Og hugsjónin lifir að eilífu,“ sagði hún.
Kristrún sagði að fyrstu 100 dagar verkstjórnarinnar segi sína sögu og að verkin hafi verið látin tala.
„Við erum að negla niður vextina, með stóru sleggjunni. Við erum að laga ríkisfjármálin og lögfesta stöðugleikareglu, auka traust til hagstjórnar, allt eins og við sögðumst ætla að gera. Og þess vegna fara verðbólgan og vextirnir lækkandi.“
Kristrún sagði að vinnandi fólk finni fyrir þessu í hverjum einasta mánuði sem og fyrirtækin. En sigri sé ekki fagnað of snemma heldur taki Samfylkingin fulla ábyrgð á stjórn efnahagsmála með forgangsröðun, hagræðingu og tekjuöflun.
„Við sögðumst ætla að innleiða almenn og réttlát auðlindagjöld. Og þetta er það sem við erum að gera. Við erum að leiðrétta veiðigjöldin og það munar um minna. Næsta haust ætlum við að samþykkja ný lög um lagareldi á Íslandi, sem tryggir að nýtingarréttur í sjókvíaeldi verður tímabundinn, ekki varanlegur eins og síðasta ríkisstjórn vildi,“ sagði formaðurinn í ræðu sinni.
Kristrún sagði að í haust verði tekin upp almenn auðlindagjöld af orkuvinnslu sem renni að hluta til nærsamfélags, óháð eignarhaldi hvort sem verið er að vinna jarðvarma, vind eða
aðra orkugjafa.
„Á næsta ári ætlum við svo að taka upp auðlindagjald með álagsstýringu í ferðaþjónustu, sem getur verið breytilegt eftir árstíma og staðsetningu, svo hægt sé að undanskilja landsvæði þar sem álag af ferðaþjónustu er lítið,“ sagði hún.
„Þetta er spurning um að þora og gera og það verður ekki alltaf auðvelt – en við ætlum að gera þetta,“ sagði Kristrún enn fremur.
Hún sagði að orkumálin væru loksins í góðum höndum og þar séu hlutirnir að komast á hreyfingu með víðtækum laga- og reglugerðarbreytingum strax á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstjórnar. Þar sé krafan skýr, aukið orkuframboð en líka varfærni og jafnvægi milli orkunýtingar og náttúruverndar.
„Ég má til með að þakka samstarfsflokkum okkar í ríkisstjórn, Viðreisn og Flokki fólksins, fyrir vel unnin störf á fyrstu 100 dögum verkstjórnar. Og ég bind miklar vonir við samstarfið á næstu árum,“ sagði Kristrún.
Þá vill Kristrún færa fólkið í landinu nær hvert öðru. „Ég vil að Samfylking hafi forystu um að færa fólkið í landinu nær hvert öðru en ekki fjær. Og ég tel að enn þéttara samstarf milli samtaka launafólks og atvinnurekenda og stjórnmálaflokkanna í landinu yrði til heilla fyrir land og þjóð.“
Einnig sagðist Kristrún vilja vinna enn betur með atvinnulífinu.
„Ég veit að við getum gert enn betur í að vinna með atvinnulífinu til lengri tíma – og við eigum að gera það. En það gildir líka á báða bóga og saman skulum við finna taktinn í því – vegna þess að Samfylkingin er reiðbúin að bera ábyrgð á landstjórninni sem kjölfestuflokkur í íslenskum stjórnmálum.“
Í lok ræðu sinnar sagði Kristrún að Samfylkingin verði dæmd af verkum sínum og hvernig flokknum gangi að sinna hagsmunum vinnandi fólks.
„Þess vegna skulum við taka upp „stóru skófluna“ fyrst – eins og ónefndur iðnrekandi í Reykjavík komst að orði – og verum algjörlega óhrædd. Hristum upp í kerfinu. Verum sjálfsgagnrýnin. Við megum aldrei verða varðhundar kerfisins ef það er ekki að virka fyrir venjulegt fólk. [...] Ríkið verður að virka. Og pólitíkin má ekki skiptast á milli tveggja jaðra – annars vegar þeirra sem eru lengst til hægri og vilja ekki að ríkið virki og hins vegar vinstriflokka sem verja alltaf ríkið því þeir þora ekki að hrista upp í kerfinu.“
Hún sagði að forsenda fyrir því pólitík jafnaðarmanna fái brautargengi sé að tekið verði fast á þeim málum sem standa fólkinu næst.
„Því að annars munu jaðarflokkar stjórnmálanna og öfgaöfl nærast á skortinum. Og því miður sjáum við dæmi þess alltof víða á Vesturlöndum. Andvaraleysi og kæruleysi er ekki í boði. Ef við þorum ekki að brjóta upp og byggja aftur betur það sem er ekki að virka – þá mun ysta hægrið nærast á því og þykjast geta boðið betur.“