Ný aðgerðaáætlun í menntamálum sem síðasta ríkisstjórn ætlaði að kynna 21. júní á síðasta ári, fyrir tæpum tíu mánuðum, liggur enn á borði ráðuneytisins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, nýr mennta- og barnamálaráðherra, segist vera að kynna sér aðgerðirnar. Ekki liggur fyrir hvenær þær verða kynntar.
Áætlunin átti að gilda fyrir tímabilið 2024 til 2027 og áttu m.a. að bregðast við slökum árangri íslenskra grunnskólanema í PISA-könnuninni árið 2022, sem lögð er fyrir á þriggja ára fresti.
Nú hafa grunnskólanemar tekið aðra PISA-könnun án þess að aðgerðir til að bregðast við þeirri sem á undan kom hafi verið kynntar.
Ásmundur Einar Daðason, þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, kynnti drög að aðgerðunum á menntaþingi stjórnvalda í september á síðasta ári, eftir að hafa frestað kynningu aðgerðanna frá júní. Óskaði hann þá eftir endurgjöf þinggesta til að klára aðgerðirnar.
Hann náði þó ekki að kynna fullmótaðar aðgerðir áður en ríkisstjórnarsamstarfinu var slitið um miðjan október.
Í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar er boðuð stórsókn í menntamálum.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sem tók við embættinu af Ásmundi Einari, náði þó heldur ekki að kynna aðgerðirnar í sinni ráðherratíð.
Í svari frá ráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is í febrúar kom fram að ráðuneytið hefði um haustið lokið vinnu við aðgerðaáætlunina í samræmi við endurgjöf sem barst á menntaþinginu í september. Aðgerðaáætlunin hefði ekki verið sökum stjórnarslita.
Var það gert til að gefa nýjum ráðherra og nýrri ríkisstjórn tækifæri til að fara yfir og laga aðgerðaáætlunina að sínum áherslum. Í viðtali við mbl.is í febrúar sagði Ásthildur Lóa að aðgerðaáætlunin yrði kynnt fljótlega. Hún gaf þó ekki upp dagsetningu.
Í nýju svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is kemur fram að laga þurfi aðgerðaáætlunina að nýrri fjármálaáætlun. „Áætlunin verður birt að þeirri vinnu lokinni.“
„Nei, ég er bara að kynna mér það. Ég er búin að vera ráðherra í þrjár vikur og þetta er í vinnslu. Ég mun skýra vel frá því þegar þar að kemur,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.
„En eins og ég segi ég er bara að kortleggja það núna hvernig við tökum á þessum málum. Þetta er auðvitað mjög víðfeðmt ráðuneyti og mikið sem þarf að skoða og ég er bara núna í því.“
Hvaða mál vilt þú leggja áherslur á í menntamálum?
„Menntamál barna, sérstaklega læsi drengja. Þetta er eitt af grundvallaratriðunum – að við sjáum til þess að drengir sérstaklega, eins og hefur komið fram, geti lesið og verið með lesskilning. Þetta er grunnurinn sem við þurfum að byggja á. Og svo líka auðvitað að kortleggja strax börn í leikskólum þannig að við getum komið í veg fyrir erfiðleika seinna, þannig við getum hjálpað þeim strax sem þurfa á hjálpa að halda og strax verið komin með plan þegar þau eru komin í grunnskóla hvernig við ætlum að fylgja þeim eftir.“
Spurður nánar út í hvernig hann sjái fyrir sér að vinna á læsisvanda barna, og þá sérstaklega drengja, segir ráðherra nú til skoðunar hvort að innleiða megi lestrarverkefnið Kveikjum neistann í fleiri grunnskóla.
„Það hefur reynst mjög vel í Vestmannaeyjum þar sem ég þekki til.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.