Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki hefur boðið til samverustundar í skólanum á þriðjudaginn vegna alvarlegs umferðarslyss sem átti sér stað í nágrenni Hofsóss á föstudaginn þar sem fjórir ungir piltar slösuðust.
Að sögn Þorkels Þorsteinssonar, sett skólameistara Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, eru þrír piltanna nemendur við skólann en piltarnir fjórir, sem eru á aldrinum 17-18 ára, voru allir fluttir á Landspítalann og liggja þar á gjörgæslu.
„Við ætlum að bjóða fólki að koma saman og ræða málin enda eru margir í áfalli og ekki síst öll ungmennin sem komu að slysinu,“ segir Þorkell í samtali við mbl.is.
Samverustundin verður haldin í bóknámshúsi skólans klukkan 17 á þriðjudaginn og eru allir velkomnir.