Kona sem var handtekin á höfuðborgarsvæðinu á föstudag vegna andláts föður síns er með réttarstöðu sakbornings í málinu. Að svo stöddu eru engir fleiri grunaðir um aðkomu að andlátinu.
Lögregla var kölluð út snemma á föstudagsmorgun eftir að tilkynning hafi borist um meðvitundarlausan mann í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan skrifar í tilkynningu að hann hafi verið fluttur á slysadeild, þar sem hann hann hafi látist skömmu síðar.
Kona um þrítugt, sem er dóttir mannsins samkvæmt heimildum mbl.is, var handtekin í húsinu og úrskurðuð í gæsluvarðhald seinna um kvöldið.
Lögreglan heldur spilunum þétt að sér og gefur ekki einu sinni upp bæjarfélagið þar sem lögregla var kölluð út. Útkallið hafi verið á höfuðborgarsvæðinu, en í ekki Reykjavík.
Að svo stöddu eru engir fleiri grunaðir um aðkomu að andláti mannsins. „Nei, það eru ekki neinir fleiri á leiðinni í gæsluvarðhald,“ segir Elín Agnes Kristínardóttir, hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en tekur fram að auðvitað geti eitthvað nýtt komið í ljós.
Veistu meira? Þú getur sent okkur ábendingar á frettir@mbl.is